Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðgerð að hefjast á Akureyrarkirkju

11.07.2019 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Nú er að hefjast viðgerð á útveggjum Akureyrarkirkju, á skemmdum sem unnar voru á kirkjunni veturinn 2017. Langan tíma hefur tekið bæði að fjármagna verkið og finna rétt efni á veggina.

Í janúar 2017 voru unnar skemmdir á fjórum kirkjum á Akureyri þegar úðað var á veggi þeirra og hurðir með svörtum úðabrúsa. Akureyrarkirkja varð verst út en á veggjum hennar er steind klæðning og allt ytra byrði er kirkjunnar friðað.

Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju, segir því hafa reynst reynst flókið að velja efni til viðgerða, en ekki megi setja hvað sem er á veggina.

Hann segir að tjónið í heild sé metið á um 18 milljónir króna, sem er nokkru meira en talið var í fyrstu. Sóknin geti ekki staðið undir þeim kostnaði, en fengist hafi styrkir úr Jöfnunarsjóði kirkna og Húsafriðunarsjóði, samtalst um 9,5 milljónir króna.

Búið sé að kaupa efni til viðgerða á allri kirkjunni og verkið verði unnið í áföngum eftir því sem fjármunir leyfa. Nú hafa verið reistir vinnupallar við suðurvegg kirkjunnar og viðgerð hefst á næstu dögum.