Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðbúnaður vegna nálægðar við byggð

Mynd: Skjáskot / RÚV
Óvissustig almannavarna hefur verið virkjað vegna kvikusöfnunar, landriss og skjálftavirkni við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofunnar, segir að kvikusöfnun með skjálftavirkni sé óvenjuleg og þensla við Þorbjörn hröð. Viðbúnaður sé vegna nálægðar við byggð og innviði. Íbúafundur hefur verið boðaður í íþróttahúsinu í Grindavík klukkan 16 á morgun. Veðurstofa Íslands hefur fært litakóða fyrir flug á gult. 

„Þessar færslur sem við erum að mæla í tengslum við þetta landris eru óháðar mælingar, bæði GPS-mælingar og gervitunglamælingar, sem styðja það að það sé þensla í gangi með miðju rétt vestan við Þorbjörn. Það sem er óvenjulegt er að þetta virðist gerast mjög hratt, hraðar færslur, þó að magnið sé kannski ekki mikið.“

Þessar hröðu færslur séu að gerast á sama tíma og jarðskjálftar mælist. „Það var jarðskjálftahrina þarna norðnorðaustur við Grindavík og okkur finnst líklegt að þetta haldist í hendur að þessir jarðskjálftar séu einskonar viðbrögð við þessum þenslubreytingum. Þetta er óvanalegt.“

Kristín segir erfitt að segja til um hversu líklegt það sé að þarna gjósi. „Það er kannski mestar líkur á því að kvikan safnist þarna saman og síðan gerist ekki meir en þetta er sviðsmynd á svæði þar sem fólk býr. Það eru 3.500 manns sem búa í Grindavík og alls konar innviðir; Bláa lónið, Svartsengi og þarna eru vegir og fjarskiptainnviðir og fleira. Allt sem er undir þannig að þetta kallaði á mjög víðtækt samstarf og viðbragð.“ 

Síðast hafi gosið þarna á 13. öld. Kristín segir að Veðurstofan fylgist með allan sólarhringinn og að fundað hafi verið með vísindamönnum frá því í morgun. Allir séu á tánum að fylgjast með en ómögulegt sé að spá fyrir um framvinduna. „Nei, það er ómögulegt að segja til um það en þar sem það er svona mikið í húfi þá er rétt að vera vakandi í þessu.“

Ólíklegast þykir að eldgos verði, en ef svo færi yrði líklegast hraunsgos þarna, segir Kristín. „Fólk getur þá hugsað til Kröfluelda. Þetta eru gossprungur sem myndu opnast með tilheyrandi eldveggjum, svo myndi streyma flæðigos þar frá. Hættan er auðvitað hraunið sjálft en svo líka geta myndast kvikugangar eða gangainnskot, þá getur gliðnað á sprungum. Vegir geta þá farið í sundur og fleira sem þarf að hafa í huga.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV