Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðbúnaður vegna flugvélar í lendingu

28.10.2019 - 06:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli laust fyrir klukkan hálf sjö í morgun þegar tilkynnt var um að vél Icelandair sem væri með lítið eldsneyti væri við það að lenda.

Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja voru tveir bílar sendir frá þeim upp á flugvöll og boð send út til fleiri viðbragðsaðila. 

Uppfært klukkan 8:06 með upplýsingum frá Isavia og Icelandair. 

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hafði sjúkravél lent á Keflavíkurflugvelli rétt eftir klukkan sex í morgun með tveimur um borð. Þegar henni var ekið inn á akstursleiðina við enda flugbrautarinnar lendir hún úti í kanti. „Þá kemur sú staða upp að vélum er beint til Akureyrar á meðan,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Þrjár farþegavélar Icelandair voru þá á leið til Keflavíkur til lendingar frá Newark, Seattle og Washington í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. „Ein af þeim gefur út þau skilaboð að hún sé ekki með nægt eldsneyti til að fljúga til Akureyrar og henni er lent í Keflavík án vandkvæða,“ segir Guðjón.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Morgunblaðið að flugvélin sem lenti í Keflavík hafi verið með nægt eldsneyti á tanknum til að fljúga til Akureyrar. Hins vegar hafi vélin verið komin í biðflug og flugstjórinn metið stöðuna á eldsneytinu þannig að rétt væri að óska eftir forgangi, sem hafi verið veittur. 

Hættustig var afturkallað eftir að vélinni var lent heilu og höldnu skömmu eftir klukkan hálf sjö og þá aftur opnað fyrir lendingar. Sjúkraflugvélin var dregin af brautinni á sjöunda tímanum, segir Guðjón. Flugbrautin hafi verið í fínu standi en hin brautin ekki verið tilbúin til notkunar á þessum tíma. 

Farþegavélarnar tvær á Akureyri voru að leggja af stað til Keflavíkur laust eftir klukkan átta.  
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV