Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Viðbrögðin hafa sett mark sitt á þingstörfin“

20.11.2019 - 19:42
Mynd: RÚV / RÚV
Heilbrigðisráðherra segir að Klausturmálið sé birtingarmynd öfgahægris í stjórnmálum. Efnt var til málþings í dag þar sem þolendur fengu tækifæri til að ræða afleiðingar kvöldsins á Klaustri.

Nú er ár síðan Bára Halldórsdóttir sat á Klausturbar og tók upp samtal sex þingmanna sem sátu þar að sumbli og fóru meðal annars ófögrum orðum um aðra þingmenn, konur og fatlaða. Bára efndi til málþings í tilefni dagsins þar sem þolendur fengu rými til að tjá sig um Klausturmálið og áhrif þess á samfélagið ári síðar.

„Það ósvífnasta var að koma fram fyrir alþjóð, eins og fulltrúi Miðflokksins gerði, og láta í veðri vaka að þetta væri bara viðtekin venja hjá þingmönnum. Að við komum bara saman á skallanum hingað og þangað og töluðum ógeðslega illa um annað fólk. 13,5 prósent þjóðarinnar er bara ofboðslega sátt við þá. Er ekki eitthvað að? Það eru fleiri húrrandi klikkaðir en ég. Það finnst mér alla vega,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á málþinginu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra segir að ekki ætti að ræða Klausturmálið sem einangrað atvik.

„Þetta er líka birtingarmynd öfgahægris, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, vegna þess að með kvenfyrirlitningu og viðhorfum sem birtast þarna, líka fyrirlitning gagnvart fötluðu fólki, hangir efasemdir gagnvart loftslagsbreytingum. Andstaða við kynfrelsi og svo framvegis og svo framvegis. Viðhorfin sem birtust ekki síst í viðbrögðum þeirra sem þarna töluðu, hafa sett mark sitt á þingstörfin,“ segir Svandís.

Bára segir að margir komi reglulega að máli við hana og lýsi yfir áhyggjum af málalokum. Þar hafi mátt gera betur.

„Ég sé ekki að það hafi orðið neinar breytingar á þingi nema að fleirum hafi þótt óþægilegt að mæta í vinnuna,“ segir Bára Halldórsdóttir.