Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðbrögð við COVID-19 víða lituð af þjóðerniskennd

18.03.2020 - 17:25
Mynd: EPA-EFE / ANSA
„Sagan kennir okkur að það er auðvelt að loka landamærum en það getur reynst þrautin þyngri að opna þau aftur síðar.“ Þetta segir stjórnmálafræðiprófessor. COVID-19 sé hnattræn vá sem krefjist hnattrænnar samvinnu en viðbrögð margra ríkja litist af þjóðerniskennd. Þjóðernisstef komi líka fram í ræðum stjórnmálamanna sem stundum reyni að þjappa fólki saman með því að upphefja meint þjóðareinkenni.

„Ríki skella hurðinni í andlitið hvort á öðru“

„Við höfum horft upp á mjög brotakennd viðbrögð sem eru ólík milli landa en þó öll í garð sama hnattræna fyrirbærisins,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Hann segir viðbrögðin mótsagnakennd og að einhverju leyti endurspegli þau aukinn uppgang þjóðernisafla á Vesturlöndum undanfarin ár. Slík öfl velji að taka á málunum heima fyrir með einhliða aðgerðum. „Vissulega höfum við séð töluvert mikið af slíku, núna í lokun landamæra þar sem ríki skella hurðinni í andlitið hvort á öðru fremur en að ráðast í sameiginlegar aðgerðir.“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarsson - RUV
Eiríkur Bergmann.

Það sem var óhugsandi verður að veruleika

Eiríkur segir að fyrir nokkrum vikum hefði verið óhugsandi að Noregur, Danmörk og Svíþjóð og fleiri Evrópuríki lokuðu landamærum sínum. Hvað þá að Evrópusambandið lokaði ytri landamærunum. „Þessi krísa opinberar auðvitað það að Evrópusambandið er fyrst og fremst ríkjabandalag þar sem ríkin ráða för hvert fyrir sig.“

Evrópusambandi sé langt frá því að vera einhvers konar sambandsríki og geti ekki brugðist við eins og sjálfstæð ríki gera, það sé enn tiltölulega lausbeislað ríkjabandalag. Þá séu innan bandalagsins ríki sem vilji einungis vernda sína borgara. 

epa08297884 German Police is seen on the border to Denmark, on Soenderjydske Highway near Froeslev, in Denmark, 16 March 2020. Germany closeed the border with Denmark to curb coronavirus. Several European countries have closed borders, schools, public facilities, and have canceled most major sports and entertainment events, in order to prevent the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus, which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/CLAUS FISKER  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Þýska lögreglan við landamæravörslu við landamæri Danmerkur.

Meint einkenni þjóða upphafin

Á Ítalíu syngur fólk ættjarðarlög af svölunum. Hér á Íslandi kveður stundum við svolítinn þjóðernistón hjá stjórnvöldum og fólki í framlínunni. Það hefur verið talað um ýmislegt sem einkennir þjóðina - að við séum skynsöm og góð í að skapa stemmningu á erfiðum tímum. Þá hefur verið talað um að stjórnvöld hér fari íslensku leiðina, láti, ólíkt sumum öðrum ríkjum, ekki pólitíkina ráða heldur hlusti á okkar færustu vísindamenn. Eiríkur segir svona orðræðu algenga á krísutímum, menn leiti inn á við. Þjóðerni sé enn grundvöllur stjórnmála á öllum Vesturlöndum. „Við höfum séð þessa orðræðu ganga mjög langt núna á Ítalíu, um þrautseigju Ítala undir áþján. Við sjáum þessa orðræðu í Danmörku þar sem Mette Frederikssen, forsætisráðherra, talar fyrst og fremst um Dani, viðbrögð Dana frekar en fólks almennt. Samsvarandi orðræða á sér auðvitað stað líka hér á Íslandi, ákveðin upphafning á meintum einkennum þjóðarinnar. 
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Frá blaðamannafundi Almannavarna í dag.

Svona orðræða getur að sögn Eiríks verið hjálpleg, huggað og þjappað fólki saman. Hættan sé þó sú að hún vindi upp á sig og verði notuð til að stilla fólki upp í andstöðu við aðra hópa. Þá geti hún verið útilokandi fyrir innflytjendur. Eiríkur segir ákveðna tilburði í þessa veru hafa birst vestanhafs og í sumum Evrópuríkjum, „en enn sem komið er hefur þessi orðræða ekki farið neitt úr böndunum, allavega ekki hérna hjá okkur.“

Þjóðernisviðbrögð hafi ýtt undir útbreiðslu í Bandaríkjunum

Eiríkur segir að COVID-19 sé alþjóðleg ógn og viðbrögð ríkja sem einungis hugsi um sig og sína eða skelli í lás séu ekki vænleg til árangurs. Á 21. öld séu samskipti einfaldlega þannig að smit berist milli manna óháð landamærum. Eiríkur segir að þjóðernissinnuð viðbrögð ríkja hafi þegar haft neikvæð áhrif í baráttunni við veiruna. „Við sjáum til að mynda að í Bandaríkjunum neituðu stjórnvöld að nota þau tæki sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hafði framleitt. Það virtist vera á þjóðernislegum grunni að þau vildu framleiða sín eigin greiningartæki. Það tafði verulega vinnu að greina útbreiðslu veirunnar í Bandaríkjunum.“

epa08303725 Medical personnel from the Somerville Hospital tests a person inside their car during drive-thru coronavirus testing in Somerville, Massachusetts, USA, 18 March 2020. According to the latest figures from the Centers for Disease Prevention and Control (CDC), there have been at least 7,301 confirmed cases and 116 deaths from the pandemic COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus in the US so far, although the number of tests has been strictly limited.  EPA-EFE/CJ GUNTHER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sýni tekið í Sommerville, Massachusetts.

Hann nefnir líka viðbrögð Vesturlanda við faraldrinum í upphafi, þau hafi fyrst og fremst litið á hann sem kínverskt eða asískt vandamál en ekki hnattrænt, ekki séð þörf á að undirbúa sig. 

Aukin samvinna á allra síðustu dögum

Eiríkur segir að þrátt fyrir lokanir landamæra og fleiri inngrip sem ekki hafi endilega hjálpað til við að takast á við vandann þá hafi ríkisstjórnir á Vesturlöndum á allra síðustu dögum farið að átta sig á því að vandinn sé hnattrænn og innanlandslausnir ekki nóg. G7-ríkin séu farin að tala meira saman og Evrópusambandsríki hafi af veikum mætti reynt að samræma aðgerðir sambandsins. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi líka fengið aukið vægi, fyrst um sinn hafi mörg ríki ætlað að hunsa leiðbeiningar hennar en úr því hafi dregið. Loks hafi ríki tekið sig saman um að hraða rannsóknum á bóluefni og meðferð við sjúkdómnum. „En allt eru þetta veikburða tilburðir og það hefur tafið málið verulega hvað þjóðernissinnaðar lausnir hafa átt mikið upp á pallborðið undanfarin ár en hið alþjóðlega viðbragð er samt sem áður að aukast.“ 

Samtakamátturinn komi eftirá í Evrópu

Hvað varðar Evrópusambandi segir hann reynsluna af áföllum þá að í upphafi sé hver sjálfum sér næstur, samtakamátturinn aukist svo mjög hratt aftur þegar kríuástandinu linnir. „Þá hefur samtakamátturinn oft verið notaður drjúgt til aðstoðar þeim sem verst hafa orðið úti í viðkomandi krísu.“

epa08303975 A banner reading in Italian: 'Everything Will Be Okay' hangs on the facade of a residential building in the San Giovanni district of Rome, Italy, 18 March 2020. Italy has reported at least 31,506 confirmed cases of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus and 2,503 deaths so far. The Mediterranean country remains in total lockdown as the pandemic disease spreads through Europe.  EPA-EFE/CLAUDIO PERI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Samtakamáttur á Ítalíu: Andrá tutto bene - allt verður í lagi.

Hægt að misnota óttann í krísuástandi

Eiríkur telur að pólitísk viðbrögð dagsins í dag geti haft langtímaafleiðingar í för með sér. Krísuástand sem kalli á þjóðernisviðbrögð eins og að loka landamærum og útiloka fólk í eðli sínu hættulegt og óprúttnir aðilar geti misnotað óttann sem sprettur upp í slíku ástandi. „Sagan kennir okkur það að það er auðvelt að taka ákvörðun um að loka landamærum setja á höft gagnvart utanaðkomandi hópum og svo framvegis en það getur reynst þrautin þyngri, þegar á að aflétta slíkum hömlum, þegar á að opna landamæri á nýjan leik getur það verið miklu erfiðari og flóknari ákvörðun heldur en að loka. Það er það sem gerir þetta dálítið uggvænlegt og því skiptir öllum sköpum hvernig úr því verður leyst og eftir því sem þessi krísa dregst á langinn og landamæri eru lengur og höft viðverandi verður örðugra að opna þau á nýjan leik. Það er svona kannski það sem við þyrftum að hafa í huga áður en ákvarðanir um slíkt eru teknar.“

epa08304441 A man is crossing an empty street at Gotaplatsen in Gothenburg, Sweden on 17 March 2020 (issued 18 March 2020).  EPA-EFE/Adam Ihse/TT  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Fáir á ferli í Gautaborg. Svíar loka landamærunum á morgun.