„Ríki skella hurðinni í andlitið hvort á öðru“
„Við höfum horft upp á mjög brotakennd viðbrögð sem eru ólík milli landa en þó öll í garð sama hnattræna fyrirbærisins,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Hann segir viðbrögðin mótsagnakennd og að einhverju leyti endurspegli þau aukinn uppgang þjóðernisafla á Vesturlöndum undanfarin ár. Slík öfl velji að taka á málunum heima fyrir með einhliða aðgerðum. „Vissulega höfum við séð töluvert mikið af slíku, núna í lokun landamæra þar sem ríki skella hurðinni í andlitið hvort á öðru fremur en að ráðast í sameiginlegar aðgerðir.“