Víða ófært á fjallvegum á Austurlandi

03.03.2020 - 09:50
færð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Vetrarfærð er víðast hvar á landinu. Fjallvegir eru víða ófærir á Norðaustur og Austurlandi. Mikið hefur snjóað í þessum landshlutum og því eru vegir þungfærir eða ófærir

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ófært á Möðrudals og Mývatnsöræfum.  Þar verður staðan endurmetin um hádegisbil.

Stórhríð er á Hófaskarði, Hólaheiði, Raufarhafnarvegi og Sandvíkurheiði. Allar þessar leiðir eru ófærar. 

Fjarðarheiði er ófær og lokuð. Þar hefur verið mikil ófærð undanfarna daga. Meta á stöðuna um miðjan dag hvort að hægt verði að opna veginn með einhverjum hætti.

Ófært er um Vatnsskarð eystra.

Þá er ófært um Öxi sem og Breiðdalsheiði.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði. Spáð er norðaustan 13-18 metrum á sekúndu. Talsverðri snjókomu, en síðar slyddu eða rigningu nærri sjávarmáli. Akstursskilyrði geta orðið erfið og vegir mögulega ófærir, sér í lagi fjallvegir.

Þá er vakin athygli á slitlagsskemmdum á Þjóðvegi 1 rétt austan við Skaftafell.

Nesjavallaleið er ófær vegna snjóa. Þá er Dynjandisheiði á Vestfjörðum ófær. Aðrar leiðir eru færar, en víða er hálka eða hálkublettir.

Veðurspá fyrir landið í heil er svohljóðandi: 

Norðaustan 13-18 m/s og snjókoma eða slydda og síðar rigning norðaustan- og austantil. Austan 8-13 á Vestfjörðum og norðvestanlands og él, en bætir í úrkomu seinnipartinn. Annars breytileg átt 5-13 og bjart framan af degi, en þykknar upp með él eftir hádegi. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost vestantil.
Breytileg átt 5-10 m/s á morgun, él eða snjókoma með köflum um sunnanvert landið, en bjartviðri og úrkomulítið norðantil. Frost 0 til 6 stig.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi