Víða hægt að versla notað

Mynd: Pinterest / Pinterest

Víða hægt að versla notað

13.05.2019 - 13:53
Með aukinni umhverfisvitund er sífellt algengara að Íslendingar kaupi sér notaðan fatnað. Í tískuhorni vikunnar fór Karen Björg Þorsteinsdóttir yfir brot af þeim stöðum þar sem hægt er að kaupa notaðar flíkur.

Hver Íslendingur losar sig að meðaltali við 15 kíló af fötum á ári og því nóg til í verslunum sem selja notuð föt. Rauði krossinn er að sjálfsögðu klassískur staður til að finna sér eitthvað fallegt en það eru sannarlega fleiri kostir í boði og hér verður stiklað á stóru. Fatamarkaðurinn á Hlemmi er sjarmerandi staður til að fara og gramsa en hann er líka virkur á Instagram og duglegur að sýna hvað er til. 

Wasteland Reykjavík er ný búð í Ingólfsstræti sem var formlega opnuð fyrir tveimur vikum. Eins og nafnið gefur til kynna er þar að finna ókjörin öll af notuðum fötum og flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Búðin er líka virk á Instagram ef þú ert ekki tilbúin/n að fara að grafa alveg strax. Verslunin Spúútnik er í augum margra mekka notaðs fatnaðar en hún virðist seint ætla að detta úr tísku. Þar er einnig hægt að fá töluvert af notaðri merkjavöru.

Mynd með færslu
 Mynd: Wasteland Reykjavík - Wasteland Reykjavík Facebook

Trendport er verslun sem var opnuð nýlega á Nýbýlavegi og býður fólki upp á að selja fötin sín án þess að vera á staðnum. Það leigir bás, setur upp fötin sín og þarf svo ekki að gera mikið meira. Verslunin virkar með sama hætti og barnafatabúðin Barnaloppan sem hefur notið mikilla vinsælda hjá foreldrum og verðandi foreldrum.

Karen endaði á því að fara yfir nokkra hluti sem gott er að hafa í huga þegar notuð föt eru keypt. Gott er að velta efninu fyrir sér, ekki viltu að það komi gat á peysuna um leið og farið er í hana. Ef þú ert byrjandi og hefur ekki keypt notað getur verið gott að byrja á hlutum sem eru nokkuð öruggt val eins og til dæmis yfirhafnir eða peysur. Að lokum segir Karen svo að gufuvél geti farið langt með að fjarlægja krumpur og skápalykt ef það er ekki tími til að viðra flíkina úti á svölum.

Hlustaðu á tískuhorn vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan.