„Við viljum útrýma kjarnorkuvopnum“

11.11.2015 - 17:09
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Utanríkisráðherra segir afstöðu Íslands gegn kjarnorkuvopnum alveg skýra, þó Ísland hafi greitt atkvæði gegn tillögu um útrýmingu kjarnorkuvopna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. Ísland vilji styðjast við þá samninga og ferli sem þegar liggja fyrir.

 

Íslandi greiddi atkvæði gegn ályktun um að banna kjarnorkuvopn í svokallaðri Fyrstu nefnd Sameinuðu þjóðanna. Nefndin, sem fjallar um alþjóðaöryggis- og afvopnunarmál, samþykkti ályktunina með 128 atkvæðum gegn 29 en 18 ríki sátu hjá.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að í ályktuninni sé lagður grunnur að nýju ferli sem kynni að veikja þá samninga sem eru í gildi, um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) og um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBT). „Það er í gangi ákveðið ferli sem menn hafa komið sér saman um að, til þess að draga úr notkun kjarnorkuvopna, til þess að hætta tilraunum með þau, og að sjálfsögðu miðar þetta allt saman að því að eyða þeim. Það var mat okkar og þessara ríkja að með því að fara að samþykkja þessa ályktun sem þarna er flutt í nefndinni þá kynnum við að vera að leggja til ferli þar sem væri að byrja upp á nýtt í raun og veru, frá því sem er búið að vera að gera fram að þessu. Við töldum einfaldlega betra að halda áfram með það ferli sem fyrir er,“ segir Gunnar Bragi. 

Hann segir mikilvægt að þær þjóðir sem eigi kjarnavopn séu hafðar með í ráðum þegar slíkar áætlanir eru gerðar. „Við munum seint ná árangri í því að eyða þessum vopnum ef við erum ekki með þau ríki sem eiga þessi vopn með við borðið. Þau voru ekki aðilar að þessari tillögu og það var fyrirfram séð að þau myndu nú ekki taka undir þetta og ekki samþykkja.“ 

Ísland er í hópi 26 ríkja sem sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu fyrir atkvæðagreiðsluna þar sem fram kom að löndin teldu ekki deilt um að notkun kjarnorkuvopna væri ómannúðleg, þó löndin greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd, meðal annars af formanni Vinstri grænna, sem segir á Facebook-síðu sinni að þessi afstaða þjóni ekki markmiðum um afvopnun og frið. „Þetta breytir engu um afstöðu okkar,“ segir Gunnar Bragi. „Við viljum útrýma kjarnorkuvopnum, við viljum bara ekki fara þessa leið.“

Ég skil ekki hvernig er hægt að rökstyðja þessa afstöðu. Fram hefur komið að Svíþjóð greiddi atkvæði með þessari tillögu...

Posted by Katrín Jakobsdóttir on Monday, November 9, 2015
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi