Upplifa griðarstaðinn sinn óöruggan
Guðmundur segir jafnframt mikilvægt að sérfræðingar fái ráðrúm til að finna út hvað olli flóðunum, hvað er ábótavant og hvað það er sem þurfi að vinna betur. „Við sem hérna búum að þurfum að fá svör við því hvað er það sem veldur því að við upplifum okkur ekki fullkomlega örugg. Auðvitað er ákveðið öryggi af þessum ofanflóðagörðum, þessum vörnum. En þegar maður upplifir að það öryggi sé ekki 100%, að griðastaðurinn sem er heimilið manns sé ekki lengur öruggur staður þá þarf maður að fá upplýsingar til að geta vegið og metið.“
Formenn stjórnarflokkana flugu vestur í hádeginu með þyrlu landhelgisgæslunnar til að meta aðstæður. „Ég held að það sé líka gott. Þá höfum við tækifæri til að ræða þetta beint, og hvernig sjáum við framhaldið fyrir okkur og hvernig ætlum við að vinna úr þessu.“
Í dag sé lögð áhersla á að koma samgöngum í samt lag. Ófært hefur verið vestur landleiðina og í dag var flogið frá Reykjavíkur til Ísafjarðar í fyrsta sinn í nærri viku. “Það er mjög mikilvægt núna ásamt því að halda áfram í sálgæslunni því að fólk er eðlilega í áfalli,“ segir Guðmundur.
„Lífið heldur áfram, ákveðnir hlutir eru að komast í sinn vanagang og einhvern takt. En ég held fyrir íbúa á Flateyri mun það taka lengri tíma heldur en þetta. Það er líka þannig, sem við þurfum að bera virðingu fyrir, fótunum er kippt undan fólki sem er þarna með atvinnustarfsemi, sjávarútveg, á eignir og báta. Úrvinnslan heldur áfram, það er besta lýsingin á þessum degi,“ segir hann jafnframt.