„Við slúðrum líka við frændsystkinin“

Mynd: Einkasafn / Auður Jónsdóttir

„Við slúðrum líka við frændsystkinin“

20.11.2019 - 09:21

Höfundar

Auður Jónsdóttir og Halldór DNA Halldórsson eru systkinabörn sem senda bæði frá sér skáldsögur fyrir jól sem fjalla um rammíslenskan veruleika á grátbroslegan hátt. Þau eru sammála um að það hjálpi þeim að glíma við veruleikann að skrifa sig inn í hann og út úr honum. „Maður teygir sig upp á hillu vanlíðunar og dregur úr skúffu gleðinnar. Þar verða töfrarnir til.“

Uppistandarinn Halldór Laxness Halldórsson, eða Dóri DNA, gaf út sína fyrstu skáldsögu á dögunum. Auður Jónsdóttir gaf einnig nýverið út skáldsögu en hefur þar að auki verið að fást við uppistand. Það mætti því segja að frændsystkinin feti að vissu leyti í fótspor hvor annars.

Tilfinningabyltingin eftir Auði er sannsögulega skáldsaga sem fjallar á einlægan hátt um hjónaskilnað sem hún gekk í gegnum nýverið. Frásögnin er í senn grátbrosleg og tregablandin. Kokkáll eftir Halldór er kraftmikil og húmorísk samtímasaga um ungan Íslending og óvæntar vendingar í ástarsambandi hans eftir helgarferð til Chicago með kærustu sinni. Auður og Halldór voru gestir Bjargar Magnúsdóttur og Gísla Marteins Baldurssonar í Morgunkaffinu þar sem þau ræddu um nýjustu höfundaverkin, húmorinn, sorgina og slúðrið.

Mynd með færslu
 Mynd: Bjartur/Mál og menning

„Dró þetta út um rassgatið á mér“

Auður skrifar á einlægan hátt um eigin reynslu í Tilfinningabyltingunni og persónurnar sem í henni birtast byggjast á raunverulegu fólki í kringum hana. Ekkert þeirra hefur þó sett sig upp á móti því hvernig sagan er sögð eða þau birtast í bókinni. „Þau eru öll mjög glöð og slök með bókina og ég er þakklát fyrir skilning fólks á því sem ég er að gera. Það sem ég er að gera er að taka veruleikann og nota hann til að búa til skáldskap.“

Kokkáll er hinsvegar ekki sjálfsævisöguleg í eiginlegum skilningi. „Bókin mín er sjálfsævisöguleg að því leyti að hún fjallar um nútímakarlmanninn og þann vanda sem er á hans herðum. Annars dró ég þetta bara út um rassgatið á mér eins og maður segir á góðri íslenskri tungu,“ segir Dóri.

Hleypur undan deginum

Það hefur mikið gengið á í lífi Halldórs síðustu vikur en ásamt því að senda frá sér sína fyrstu skáldsögu var Atómstöðin - endurlit, byggð á skáldsögu nóbelsskáldsins og afa þeirra frændsystkina Halldórs Laxness, frumsýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins nýverið en leikgerðin er eftir Dóra DNA. Hann viðurkennir að leyndarmálið á bak við dugnað hans sé í raun að vera á stöðugu spani. „Ég frumsýndi leikrit á stóra sviðinu og bók í sama mánuði en þetta er einn sjötti af því sem ég var að gera. Ég er góður að halda öllum boltum á lofti, ég vakna, dreg andann djúpt og byrja svo strax að hlaupa undan deginum,“ segir Halldór og frænka hans tekur undir að þau þrífist bæði best þegar það er mikið að gera hjá þeim. „Mér líður vel  í þessum hraða og með eitthvað í höndunum. Þetta er það sama og Auja er að skrifa um, þegar maður er með nóg á herðunum eru skrifin leiðin út. Mér finnst gott að vera í mörgu, ýta sumum hlutum frá mér en draga aðra til mín,“ segir hann.

„Skrifin eru leið til að halda sér á floti og þau búa til ramma í kringum lífið,“ samsinnir Auður. „Þegar maður gengur til dæmis í gegnum skilnað verður tilveran kaótísk en ég nota skrifin til að greiða úr hugsunum. Skrifin leggja merkingu í veruleikann.“

Viðkvæmni karlmannsins

Bók Dóra fjallar sem um ungan, myndarlegan Reykvíking sem vinnur á auglýsingastofu. Hann býður sem fyrr segir kærustunni í helgarferð til Chicago þar sem líf þeirra beggja tekur óvæntum breytingum. Auður fékk að lesa bókina í sumar áður en hún kom út og hún segist hafa dáðst að því hve mjúkur aðalkarakter bókarinnar sé þrátt fyrir að vera ungur karlmaður skrifaður af karlmanni. „Ég varð stolt af því. Dóri á sjálfur svo töff og harðgera foreldra en það er tilfinningalega kröftugt hvernig hann fer inn í viðkvæmni karlmannsins.“

„Hláturinn reddar manni“

Sem fyrr segir er Auður byrjuð að prófa sig áfram í uppistandi en hún kom meðal annars nýverið fram á Ástarráðstefnu Elísabetar Jökulsdóttur í Tjarnarbíói þar sem hún sagði á kómískan hátt frá reynslu sinni af ástinni og sigrum og skakkaföllum í þeim efnum. Líkt og í Tilfinningabyltingunni er uppistand hennar stundum grátbroslegt eins og lífið sjálft og stutt á milli hryggðar og hláturs. „Hláturinn reddar manni svo oft,“ segir Auður og Dóri tekur undir. „Uppistand er líka drama, maður er með tvær grímur og önnur er brosandi en hin í fýlu,“ segir Halldór. „Mér leiðast sjálfum til dæmis bækur og leikverk sem eru annað hvort fyndin eða drama, ég verð að fá bæði. Í sjónvarpþáttum finnst mér líka persónur hætta að vera mannlegar þegar þær hlæja ekki. Það er hluti af því að vera manneskja að hlæja og gráta samtímis.“

Dóri segir að það sé til dæmis mjög margt fyndið í bók frænku sinnar en á sama tíma og hægt sé að hlæja þá nísti margt í hjartað á sama tíma. „Auður er að flytja frá Berlín í bókinni, frá borg sem fólk er að safna hugmyndum og skoðunum og ræðir málin í matarboðum, til Íslands. Á Íslandi safnar fólk bara norrænum tekkhúsgögnum og Iittala,“ segir hann og hlær.

Ömurlegur rappari en frábært skáld

Kokkáll inniheldur líka samblöndu af kímni og sorg sem Dóri segist ekki þurfa að leggja sig fram við að láta fylgja frásögninni. Þegar hann er spurður út í þennan nýtilfundna alvarleika í sköpun hans sem þekktastur er fyrir grín, minnist hann á tölvupóstssamskipti bandaríska ljóðskáldsins Anne Carson og Ragnars Kjartanssonar listamanns og vinar hennar þar sem ljóðagerð Dóra bar á góma. „Ragnar tók ljóð úr bókinni minni og þýddi það og sendi á Anne sem svarar: „Þetta er stórkostlegt. Hver skrifar þetta?“ Hann svarar og áframsendir póstinn á mig,“ rifjar Halldór upp og glottir. Í pósti Ragnars stendur:

Þetta er hann Dóri vinur minn. Hann var ömurlegur rappari, sæmilegur uppistandari en frábært skáld.

Hugsar bara um hræðilega hluti og vanlíðan

Dóri viðurkennir að skrifin komi mjög náttúrulega til sín og hann þurfi ekki að setja sig í neinar stellingar í skáldskap. „Ég er til dæmis meira að „feika“ sem uppistandari. Ég hugsa bara um hræðilega hluti og vanlíðan. Mitt áhugasvið er hin mannlega angist,“ segir hann. „Maður teygir sig upp á hillu vanlíðunar og dregur úr skúffu gleðinnar. Þar verða töfrarnir til.“

Málaferli og hjónaskilnaður

Í Tilfinningabyltingunni segir Auður frá því hvernig hún gekk í gegnum hjónaskilnað á en á svipuðum tíma og hann er að verða veruleika er Auður að ganga í gegnum málaferli. Hún var sýknuð, eftir að vera stefnt fyrir meiðyrði af Þórarni Jónssyni forsvarsmanni hestaleigunnar í Laxnesi, í október í fyrra. Auður gerir upp erfiða tíma með skáldskapinn og húmorinn að vopni og segir erfiðasta hjallann vera að baki. „Ég hef það rosalega fínt og ég þakka skrifunum. Ég skrifaði mig í gegnum þetta.“

Unglingurinn sem það sanna í hverjum manni

Hún lýsir því í bókinni hvernig hún fór frá því að vera ráðsettur rithöfundur og eiginkona búsett í Berlín og fluttist til Íslands fyrir tveimur árum og fann nánast eins og síðbúna unglingaveiki hellast yfir sig. „Þegar maður fer út úr stofnuninni hjónaband þá kemur unglingurinn yfir mann og hann er alveg frábær. Unglingurinn er það sanna í manni. Þar er þráin, ráðvillan og hvötin,“ segir hún kímin.

Slúðrið í borginni og bókabransanum

Hún viðurkennir að í kjölfarið á skilnaðinum og flutningum heim til Íslands hafi hún orðið vör við hvernig allir eru með nefið í einkalífi hvers annars hér á landi ólíkt því sem hún vandist í Berlín. „Eftir skilnaðinn sérstaklega fannst mér ég vera á sviði og allir að horfa. Það er rosalega mikið slúðrað í Reykjavík og það er skemmtilegt, maður tekur þátt í slúðri sjálfur en þegar maður er einhleypur verður maður berskjaldaður fyrir þessu. Í Berlín eru allir í sínu og enginn að pæla í manni en hér gerir maður eitthvað og það er komið út um allan bæ.“

Dóri viðurkennir að hann þekki líka Gróu á Leiti á milli höfunda í jólabókaflóðinu í óvæntri mynd sem hann átti ekki von á. „Ég hef áður gefið út ljóðabók og það vill enginn kaupa ljóðabækur og maður veit sjálfur að það nennir enginn að lesa þær,“ segir hann og hlær. „Svo gefurðu út skáldsögu og þú ferð í þennan heim rithöfunda á Íslandi, hinni skrifelskandi þjóð, og þú ferð í bókabúð og hittir þrjá rithöfunda sem eru allir að kíkja á hvernig þeirra bók er raðað. Svo fær maður póst frá einhverjum sem segir: Ert þú búinn að lesa þessa? Hann er greinilega að skrifa um þennan og það er pottþétt því þessi skrifaði status um hann á Facebook og núna á aldeilis að níða á honum skóinn!“ 

Hann segist þó ekki hneykslaður heldur sé hann frekar impóneraður yfir þessum nýja veruleika en annað. „Ég fyrirgef slúðrurum allt. Við slúðrum líka við frændsystkinin.“

Rætt var við Dóra DNA og Auði Jónsdóttur í Morgunkaffinu og má hlýða á viðtalið allt í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Myljandi fyndin skáldsaga um íslenskan veruleika

Bókmenntir

Óraunverulegt að ganga í gegnum skilnað