Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Við sáum alveg fyrir að það myndi ýmislegt gerast“

15.12.2019 - 14:57
Mynd: Rúv / Silfrið
„Okkar ábyrgð er gríðarlega mikil og í lögum eigum við að tryggja öllum almenningi jafnt aðgengi að rafmagni. Vegna þess að við komumst ekki nógu hratt í framkvæmdir þá eigum við í vandræðum með að uppfylla okkar kröfur. Við verðum að komast í að framkvæma til þess að geta uppfyllt okkar skyldur,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Ekki skynsamlegt að vísa gagnrýni á bug

„Nú, berum við einhverja ábyrgð á að svona fór? Auðvitað gerum við það að einhverju leyti,“ segir Guðmundur Ingi í Silfrinu í dag. Þá hefur undirbúningur vegna fárviðrisins verið gagnrýndur og sagður hafa getað verið betri af hálfu Landsnets. 

„Ég held að það sé ekki skynsamlegt að vísa svona gagnrýni á bug. Eftir allar truflanir er mjög mikilvægt að fara yfir og læra af reynslunni. Það kann vel að vera, eftir á að hyggja, að við hefðum gert eitthvað sem hefði betur mátt fara. Við erum að taka þúsundir ákvarðana og það er ekkert ólíklegt að einhverjar þeirra megi endurskoða,“ segir Guðmundur Ingi. 

„Við sáum alveg fyrir að það myndi ýmislegt gerast.“ Gríðarlegur undirbúningur hafi því farið fram um leið og veðurspár lágu fyrir. Mannskapur var aukinn í stjórnstöð, ákveðnar stöðvar voru mannaðar samkvæmt spám og hluti flokksins sendur í hvíld. Þá var farið í að tryggja að tölvu- og fjarskiptakerfi yrðu til taks og tæki og tól og varahlutir teknir til.

Geti verið himinn og haf á milli sjónarmiða og skoðana

Þá hefur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagt að framkvæmdir Landsnets strandi ekki á fjármagni heldur leyfum. Kerfið sé einfaldlega of flókið í framkvæmd og tímafrekt. 

Ráðherrar og forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa þá verið gagnrýndir fyrir að varpa ábyrgð ríkisins og stofnana þess á rafmagnsleysinu yfir á landeigendur og umhverfisverndarsinna.

Guðmundur Ingi segist ekki geta tekið undir það að ábyrgðin liggi þar. Það viti þó allir að deilt sé um uppbyggingu flutningslína í þjóðfélaginu. Þá hafi áætlanir ekki gengið eftir vegna hægagangs. „Sá hægagangur, hann er náttúrulega fjölþættur, meðal annars vegna samningaviðræðna við landeigendur, en miklu miklu meira heldur en það, og það er miklu flóknara spil,“ segir hann. 

Í grundvallaratriðum hafi ekki ríkt sátt um það hvernig eigi að byggja upp eða nota orkuna. Fjölmörg sjónarmið séu þar undir. Til að ná árangri verði að reyna að ná sem mestri sátt um framkvæmdir. Með það að augnamiði hafi verkferlum verið mikið breytt á undanförnum árum og samráð við málsaðila aukið sem fyrst í ferlinu.

Reynt sé að finna lausn sem er ásættanleg fyrir alla. Það geti verið himinn og haf á milli sjónarmiða og skoðana og samningaviðræður geti verið við allt að hundrað landeigendur í einu verkefni. Stundum gangi það vel og stundum ekki. 

Allt komið í lag milli jóla og nýárs

„Í landeigendaviðræðunum er neyðarréttur í þjóðfélaginu og það heitir eignarnám. Til þess að nýta þann neyðarrétt þá þarf að vera búið að fullreyna að ná samningum og það eru mjög ríkar kröfur gerðar til okkar af stjórnvöldum að uppfylla þær skyldur okkar í samningum áður en menn grípa til þess neyðarréttar, en hann er til.“

Þá þurfi þurfi að einfalda kerfið og gera það skýrara og skilvirkara. „Það þarf að laga skýrleikann í þeim reglum sem við erum að fara eftir, þannig að við til dæmis, sem framkvæmdaaðili vitum þá nákvæmlega hvað það er sem að þarf að uppfylla, en að það sé ekki túlkunaratriði hverju sinni, eins og þessi opni texti sem við erum oft að glíma við gefur til kynna.“  

Guðmundur Ingi segir að Landsnet vinni enn að ýmsum verkefnum í kjölfar fárviðrisins. Gert sé ráð fyrir að sú vinna muni halda áfram næstu vikurnar. Allt kerfið verði þá endanlega komið í samt lag á milli jóla og nýárs. „Þetta er heilmikið, enda gekk mikið á.“