„Við hugsum bara um okkar íþróttafólk og heilsu þeirra“

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

„Við hugsum bara um okkar íþróttafólk og heilsu þeirra“

04.02.2020 - 18:31
Wuhan-kórónaveiran hefur haft víðtæk áhrif á íþróttalíf heimsins undanfarið. Andri Stefánsson, aðalfararstjóri íslenska hópsins á Ólympíuleikunum sem verða haldnir í Tókýó í sumar, segir að fararstjórn hópsins fylgist vel með þróun mála og vonar að veiran hafi sem minnst áhrif á leikana.

Wuhan-kórónaveirufaraldurinn hefur hingað til haft mest áhrif á íþróttalíf í Kína. Mót hafa verið felld niður og kínverskt íþróttafólk hætt við þátttöku á mótum utan Kína. Yfirvöld í Japan hafa sett viðbragðsáætlanir sínar á hæsta stig til að koma í veg fyrir að veiran breiðist þar út en 170 dagar eru þar til Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó. Ekki er ljóst enn hversu margir keppa fyrir Íslands hönd á leikunum. Andri Stefánsson verður aðalfararstjóri íslenska hópsins í Tókýó og hann vonar að faraldurinn hafi lítil áhrif á leikana.

„Við erum náttúrulega að glíma við þetta á hverjum leikum, það eru alltaf  einhver svona mál sem koma upp. Við erum búin að sjá það með Zika-veiruna á sínum tíma og það var fuglaflensan líka hérna áður fyrr, þannig að við erum að vona að þetta gangi tiltölulega fljótt yfir þó að það sé kannski erfitt að segja til um það,“ segir Andri. „Við erum ekki kannski beint sérfræðingar í þessu máli en við vonum að sjálfsögðu að þetta hafi sem minnst áhrif á leikana sjálfa,“  segir hann.

Hafið þið fengið einhverjar upplýsingar eða tilmæli frá alþjóðaólympíunefndinni?

„Ekki nema svona þessi almennu tilmæli, sem alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur líka verið að gefa út. Hvernig á að haga sér varðandi almennt hreinlæti og heilsu þannig. En við höfum líka passað okkur á því að vera ekki að taka of stór skref. Við fylgjumst mjög mikið þessu íþróttasamfélagi, bæði alþjóðaólympíunefndinni, Norðurlöndunum og svona því sem er í umræðunni þar. Þannig að við sem litla Ísland, við hugsum bara um okkar íþróttafólk og heilsu þeirra og fylgjum síðan bara þessum ramma sem er stillt upp í kringum þetta,“  segir Andri.

Niðurfelling móta og fjarvera kínverskra keppenda getur haft áhrif á baráttuna um keppnisrétt á leikunum. Andri hefur þó trú á að alþjóðasamböndin finni út úr því.

„Ég held að, og ég vona það, að þetta hafi minni áhrif heldur en fólk heldur í dag, á undirbúning fyrir leikana og á þátttöku, og ég held að þessi alþjóðasambönd reyni að finna lausnir sem gera það að verkum að þetta bitni ekki á íþróttafólkinu sjálfu. Það er síst það sem við viljum láta verða fyrir áhrifum af þessu,“  segir Andri Stefánsson.

 

Tengdar fréttir

Skíði

Aflýsa heimsbikarmóti á skíðum vegna kórónaveirunnar