Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Við höfum aldrei farið hringinn áður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Við höfum aldrei farið hringinn áður

11.05.2019 - 13:45

Höfundar

Hljómsveitin Hjálmar býr sig undir hringferð um landið með vorinu og samhliða þeirri ferð kemur út ný plata með nýjum og nýlega útgefnum lögum. Hjálmar litu inn í Stúdíó 12 og með þeim var hundurinn Spotti.

Hljómsveitina Hjálma frá Keflavík þekkja flestir landsmenn. Sveitin fagnar fimmtán ára afmæli um þessar mundir og tiil að fagna þeim tímamótum ætla þeir að ferðast um landið þvert og endilangt og spila á fimmtán stöðum. Þá kemur út ný hljómplata með lögum sem komið hafa út síðustu mánuði auk nokkurra nýrra laga. Tónleikaferðalagið stendur frá 31. maí til 30. júní. 

Hjálmar eru þeir Helgi Svavar Helgason trommari, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson bassaleikari, Guðmundur Kristinn Jónsson gítarleikari, Þorsteinn Einarsson gítarleikari og söngvari og Sigurður Guðmundsson sem syngur og spilar á orgel. Auk þeirra mætti einn úr fjölskyldu Sigurðar með í upptökurnar. „Já, hann Spotti liggur undir löppunum á mér núna. Hann kom með mér eina hringferð um landið síðasta sumar og kemur líklega aftur í hringferð nú í sumar,“ segir Sigurður. Hundurinn Spotti lá rólegur og lét ekki atganginn í hljóðverinu trufla sig á nokkurn hátt.

Mynd: RÚV / RÚV
Hjálmar - Allt er eitt

Fyrsta lagið heitir Allt er eitt og kom út 2016 en annað lagið heitir Hvað viltu gera?. Lagið samdi söngvarinn Þorsteinn Einarsson. „Lagið fjallar um einhvern vitleysing, hann hefur verið til og verður örugglega til,“ segir Þorsteinn.

Mynd: RÚV / RÚV
Hjálmar - Hvað viltu gera?

Hjálmar fagna eins og fyrr segir fimmtán ára afmæli í ár og segja þeir að hugmyndin að sveitinni hafi orðið til á heimili og í hljóðveri Rúnars Júl. „Við voru svo miklir heimagangar hjá Rúnari, svo biður hann okkur um að taka upp plötu með sér. Þar vildi hann hafa tvö reggílög. Þetta er platan Það þarf fólk eins og þig, og þar var lag sem heitir Gott er að gefa og það varð eiginlega upphafið að því að við fórum að gramsa í þessu reggídóti,“ segja þeir Guðmundur Kristinn og Sigurður, eða Kiddi og Siggi, um hvernig Hjálmar urðu til. Þorsteinn Einarsson bættist svo í hópinn skömmu síðar. „Það var þá sem Austfjarðaþokan færðist yfir bandið,“ segir Sigurður. „Þegar siglfirska sólin kom inn bærði hún þokunni frá og loks kom dass af Kópavogslími sem límdi þetta allt saman,“ bætir siglfirski trommarinn Helgi Svavar við.

Mynd: RÚV / RÚV
Hjálmar - Hættur að anda

Þriðja og síðasta lag Hjálma heitir Hættur að anda og kom það út í fyrra. Lagið á vafalaust eftir að finna sér heimili, eins og margir aðrir smellir frá síðustu misserum, á nýju plötunni sem kemur út á næstu vikum.

Um hljóðstjórn sá Hrafnkell Sigurðsson, myndstjórn Helgi Jóhannesson og Matthías Már Magnússon tók á móti Hjálmum í Stúdíói 12.