Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við héldum öll að við myndum deyja þarna“ 

09.01.2020 - 08:16
Mynd: RÚV / RÚV
Við héldum að við myndum öll deyja þarna, segja ferðamenn sem voru í skipulagðri vélsleðaferð á Langjökul á vegum Mountaineers of Iceland. Fólkið mátti hírast úti í hríðarbyl klukkustundum saman, án þess að fá vott eða þurrt. Varað hafði verið við óveðri á svæðinu.

Kölluðu fyrst eftir aðstoð eigin manna

Systurnar Nicole og Lindsey Smith, sem eru 19 og 23ja ára og koma frá Bandaríkjunum, lýsa því hvernig ferðamennirnir lentu í vanda á jöklinum eftir að blindhríð skall á upp úr klukkan tvö að degi til. Þá hafi þeim verið sagt að kallað hefði verið á aðstoð. Það var um klukkan fjögur. Þegar hjálpin svo barst voru það tveir 14 manna bílar, en um fimmtíu manns voru í ferðinni, að meðtöldum fararstjórum. „Við fengum ekkert að drekka né borða og höfðum engin teppi í minnst fimmtán klukkustundir,“ segir Nicole.

Miðstöðin í bílunum virkaði ekki. Þetta voru bílar frá Mountaineers of Iceland. Ekki var kallað á aðstoð björgunarsveita fyrr en um kvöldmatarleitið. Þar sem ekki var pláss fyrir alla í bílunum skiptist unga fólkið á að vera úti, að sögn stúlknanna. 

Snjósleðarnir eina skjólið í tæpa sex tíma

Áður en fólkið komst í bílana þurfti það að bíða úti og þeirra eina von um skjól var frá snjósleðunum. „Við skýldum okkur í um fimm og hálfan tíma á bak við snjósleðana, sem var óhugnanlegt. Við héldum öll að við myndum deyja þarna,“ segir Nicole. 

Antonio Galvani, sem er fjórtán ára og kemur frá Brasilíu, er einn þeirra sem ekki komst strax í skjól eftir að bílarnir tveir komu á vettvang. „Við vorum í snjónum í níu tíma,“ segir hann. „Ég hélt að ég myndi deyja.“