„Við fögnum valkvíðanum“

Mynd:  / 

„Við fögnum valkvíðanum“

21.02.2020 - 16:36
Við fögnum valkvíðanum, segir Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari karla í fótbolta. Hann segir standið á landsliðsmönnum vera betra nú en það hafi verið í eitt og hálft ár. Fimm vikur eru þar til Ísland mætir Rúmeníu í umspilsleik um sæti á EM 2020.

Rúmlega eitt og hálft ár eru síðan Erik Hamren og Freyr tóku við íslenska liðinu og á þeim tíma hafa meiðsli sett stórt strik í reikninginn hjá liðinu. Þegar rúmur mánuður er í leikinn gegn Rúmeníu er staðan hins vegar mun betri. „Ef ég myndi horfa svona á heildarmynd síðustu átján mánaða að þá hefur liðið sjaldan verið jafn heilt og akkúrat núna,“ sagði Freyr þegar hann ræddi við RÚV í dag.

Jóhann Berg Guðmundsson hefur átt við þrálát meiðsli að stríða en er kominn á ról og Freyr segir líta vel út með hann. „Jói er í hóp um helgina hjá Burnley sem er bara jákvætt. Hann er búinn að æfa vel síðustu þrjár vikur. Þannig að ég myndi túlka það þannig að staðan á honum sé jákvæð. Hann er á réttri leið miðað við hvernig þeir hafa tæklað málið hjá Burnley. Þannig að við erum bara mjög bjartsýnir. En svo bara kemur í ljós hvað hann verður kominn með margar mínútur í kroppinn fyrir landsleikina,“ sagði Freyr.

Skynsamur Ragnar

Ragnar Sigurðsson og Arnór Ingvi Traustason spiluðu báðir í Evrópudeildinni í gærkvöldi en fóru báðir af velli. Arnór Ingvi stífnaði í kálfa og fór af velli eftir 20 mínútur og er óvíst með hans meiðsli. Ragnar fór af velli í lok síns leiks.

„Raggi spilaði frábæran leik í gær með FCK á móti Celtic. En á 80. mínútu tók hann góðan sprett og fékk svo krampa. Þeir áttu eftir eina skiptingu og skynsamur Raggi fékk skiptinguna og það er allt í góðu í dag,“ sagði Freyr.

Reynslan vegur þungt

Kári Árnason og Hannes Þór Halldórsson spila báðir í Pepsí Max deildinni hér heima. Þeir verða því báðir á miðju undirbúningstímabili í lok mars sem Freyr samþykkir að sé ekki ákjósanlegt. Báðir hafa þó miðað vinn undirbúning við leikinn gegn Rúmeníu.

„Svo er það líka svolítið þannig að þegar þú ferð í svona leiki að reynslan skiptir rosalegu máli. En þú þarft að vera í góðu standi til að láta reynsluna tikka fyrir þig,“ sagði Freyr.

Höfuðverkur fyrir Svíann

Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson voru lengi framan af vetri án félags og í erfiðri stöðu. Þeir eru hins vegar báðir farnir að spila, Emil með Padova í ítölsku c-deildinni og Birkir með Brescia í Seríu A. Flestir leikmanna eru því á góðum stað og því fagna þjálfararnir.

„Eins og staðan er núna erum við að fylgjast með 35 leikmönnum og það eru aðeins þrír af þeim sem eru að berjast við smávægileg meiðsli, þannig það verður mikill höfuðverkur fyrir Svíann,“ sagði Freyr og átti við Erik Hamrén aðalþjálfara íslenska landsliðsins. „Við fögnum valkvíðanum!“