Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við erum öll orðin sjónvarpsstjórar yfir eigin lífi“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við erum öll orðin sjónvarpsstjórar yfir eigin lífi“

20.02.2020 - 11:15

Höfundar

Örvæntingarfullur sjónvarpsmaður tilkynnir að hann ætli að stytta sér aldur í beinni útsendingu í Útsendingu, sem verður frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins á föstudag.

Útsending byggir á kvikmyndinni Network frá árinu 1976, sem tilnefnd var til fjölda Óskarsverðlauna. Myndin var snörp ádeila á fjölmiðla og þá átt sem þeir stefndu í. Þar segir frá sjónvarpsmanninum Howard Beale, sem hótar að skjóta sig í höfuðið í beinni útsendingu eftir að hann er rekinn vegna þverrandi áhorfs.  

Leikgerðin er eftir Lee Hall og var frumsýnd  árið 2017 í London með Bryan Cranston úr Breaking Bad í aðalhlutverki . Verkið sló rækilega í gegn og var í kjölfarið sýnt á Broadway. Uppfærslan í Þjóðleikhúsinu er sú þriðja í röðinni en Guðjón Davíð Karlsson – Gói – leikstýrir.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðjón Davíð Karlsson – Gói – leikstjóri Útsendingar.

„Paddy Chayefsky, sem skrifaði handritið að myndinni, var svolítið með puttann á lofti og að vara okkur við. En í dag er þetta heimildaleikhús um tímana sem við erum að lifa núna. Um klikkbeitur og hvað við köllum þetta allt saman. Annar vinkill sem er áhugaverður er að í dag erum við öll orðin sjónvarpsstjórar yfir okkar eigin lífi. Þannig að þetta fjallar um hvar siðferðismörkin eru.“

Gói segist ekki líta á verkið sem árás á fjölmiðla heldur beini það sjónum ekki síður að neytendum þeirra. 

„Það erum við sem búum fjölmiðlana til, það eru við sem viljum sjá fyrirsagnir þar sem stendur hópslys: myndband. Við viljum sjá allan viðbjóðinn og fjölmiðlarnir svara kallinu og við erum komin í ógöngur. Maður fær eiginlega bara hroll að horfa á þetta verk. Það talar enn dýpra til okkur og löðrungar okkur fastar en það gerði þegar myndin var frumsýnd 1976.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Á sviðinu hefur verið komið fyrir fullútbúnu og virku myndveri. Til að setja það upp var fenginn Egill Eðvarðsson, einn reyndasti sjónvarpspródúsent Íslendinga, sem hefur staðið fyrir aftan myndavélarnar í hálfa öld.

„Leikritið gerist að stórum hluta í myndveri og þar ætti ég að kunna eitthvað til verka,“ segir Egill. „En það eru ótal aðrar myndir sem ég þarf að setja upp því hlutir gerast á skrifstofum, úti í bæ, á veitingahúsum, heimahúsum og fleira. Við Gói völdum þá leið sem ég vona að sé snjöll og sniðug, að öll rými eru eins og í sjónvarpi.“  

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.