Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Við erum ekkert að grínast með þetta“

24.03.2020 - 15:27
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Við erum ekkert að grínast með þetta. Það er full alvara á bak við þessar tölur og þess vegna verður fólk að taka þetta alvarlega,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fundi almannavarna og landlæknis í dag. Hann brást þá við spurningu um hvernig fólk hefði farið eftir hertu samkomubanni. Almannavarnir fengu margar tilkynningar í morgun sem Víðir sagði til marks um að ekki væru allir komnir í takt við samkomubann.

Víðir rakti fjölda beiðna sem borist hafa um undanþágu frá samkomubanni í rekstri fyrirtækja og taldi það til marks um að ekki tækju allir stöðuna nógu alvarlega. Hann benti á að víða erlendis væru takmörkin mun strangari og ekki mættu fleiri en tveir koma saman.

„Þetta er ekki flókið,“ sagði Víðir um ástandið. „Þetta er mjög snúið fyrir mörg fyrirtæki og mörg fyrirtæki munu ekki geta starfað. Það er ekkert í samfélaginu að virka eins og það gerir venjulega. Menn geta ekki sett sig niður þannig að það virki alvarlega.“

Víðir sagði að margar undanþágubeiðnir frá samkomubanni hefðu borist. Litið var til þess að matvælaframleiðsla væri mikilvæg og því veittar undanþágur til nokkurra slíkra fyrirtækja. „Þau þurfa að uppfylla mjög ströng skilyrði til að fá þetta,“ sagði Víðir. Hann sagði að tryggja þyrfti aðskilnað starfsmanna, varnarbúnað starfsmanna, og aðskilda búningsklefa, kaffistofur og salerni starfsmanna. „Það hefur töluvert mörgum umsóknum verið hafnað.“

Mynd: RÚV / RÚV