„Við erum Bubbi og Bubbi er við“

Mynd: Samsett mynd / RÚV

„Við erum Bubbi og Bubbi er við“

11.03.2020 - 11:13

Höfundar

Borgarleikhúsið frumsýnir á föstudag leikritið Níu líf sem byggist á ævi og höfundarverki Bubba Morthens. Í sýningunni er ævi Bubba skoðuð frá ýmsum hliðum, í karnivalskri sýningu sem geymir bæði söngva og dansa, meðal annars nýjar útsetningar á lögum Bubba. „Við erum með allt undir,“ segir Ólafur Egill Egilsson leikstjóri verksins.​

Viðburðarík saga Bubba er í verkinu rakin allt frá fæðingu til dagsins í dag. „Við komumst auðvitað ekki yfir allt í öllum smáatriðum eins og eðlilegt er, þetta er endursögn og frásögn og túlkun og allt það,“ segir Ólafur Egill. Hann segir lykilinn að því að hann sannfærðist um að þessi saga ætti erindi á svið hafi verið að finna í ljóðabókum Bubba, Öskraðu gat á myrkrið (2015), Hreistur (2017), og Rof (2018), sem komið hafa út á undanförnum árum. Þar opni hann sig og segi frá tómarúminu, svartholinu, sem myndaðist innra með honum og heimtaði velgengni og frægð. „Þarna sá ég undirtextann, þarna er undiraldan, það sem dramatískt opnar fjallið Bubba, fyrir okkur áhorfendum.“

Skuggarnir og sársaukinn​

Ólafur leggur áherslu á að leikritið snúist ekki aðeins um tónlist Bubba Morthens, sem auðvitað er fyrir löngu orðin hluti af íslenskri þjóðarsál, heldur líka um tilfinningar og mennsku. „Hvað eigum við að sækja í þessa sögu hans? Það er tímalaus saga um mennsku,“ segir Ólafur. „Um mann sem byrjar höllum fæti, lendir í ýmsum áföllum, skakkaföllum. Hann vinnur sig út úr því á hnefanum, breytist í fjall, kókaínfjall, egó-fjall, alls konar fjöll, heilan fjallgarð. Svo hrynur það, það molnar allt og springur og hann þarf að leita að sjálfum sér alveg upp á nýtt og sættast við skuggana og sársaukann, og ég held að þar sé saga sem við öll getum skilið.“

Bubbi sagði eitt sinn að sá sem fæðist undir fjalli breytist um síðir í fjall. Og víst er að Bubbi Morthens hefur, allar götur síðan hann framdi sína eigin menningarbyltingu á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar, verið einn mikilvægasti og áhrifamesti popptónlistarmaður þjóðarinnar, og í raun miklu meir en það, stærð sem erfitt er að horfa framhjá. „Bubbi er partur af landslaginu okkar,“ segir Ólafur, „og landslagið mótar okkur eins og allt umhverfi okkar hefur áhrif á okkur. Og að hafa Bubba alltaf sem þennan fasta í samfélaginu frá '78, þegar hann kemur fram, hefur þau áhrif á okkur að við erum öll að ákveðnu leyti fjallið, við erum öll Bubbi, og Bubbi speglar okkur, hann er við, við erum Bubbi og Bubbi er við.“

Hitamælir þjóðarinnar​

Ólafur bendir á að Bubbi hafi verið margfaldur í roðinu í gegnum tíðina, hann hafi tekið stöðugum hamskiptum. „Hann er svo duglegur að tjá sig um alla mögulega hluti, og sína eigin upplifun af heiminum og umhverfinu, og íslensku samfélagi.“ Með tilsvörum sínum og textum hafi hann tekið sér stöðu brauryðjanda í hinum ýmsu baráttumálum. „Hann spilar með rauðsokkum reglulega, hann er mikill feminísti, hann á kærustu á tímabili sem er mikil rauðsokka, og hann fer inn í það allt. Og hann fer að tala fyrir jöfnuði og jafnréttindum áður en sú alda er komin í fullan skriðþunga.“ 

Bubbi hafi meðal annars barist fyrir réttindum samkynhneigðra, gegn hvalveiðum og vakið athygli þjóðarinnar á stéttabaráttu og kvótamálum. „Þannig að í krafti þess er hann oft eins og hitamælir þjóðarinnar, eða loftvogin, eða hvað við viljum kalla hann.“ Ólafur segir að þeir áhorfendur sem hafa séð sýninguna Níu líf nú þegar hafi það á orði að þeir hafi fram til þessa ekki áttað sig á öllu því sem Bubbi Morthens hefur gengið í gegnum. Mörg hans þekktustu laga fjalli um sársauka sem aðdáendur hans hafa ekki endilega leitt hugann að. Ólafur nefnir lagið Fjöllin hafa vakað sem dæmi, þar sem undirmeðvitundin taki að hans mati til máls, og að sýningin Níu líf veki meðal annars athygli á þessu. „Þetta samhengi tónlistarinnar, laganna, og hans lífs, hvað hann er að ganga í gegnum, kannski nýtt ljós á það.“

Ólafur segist tengja við Bubba Morthens nákvæmlega eins og hann er í dag. Mann sem hefur tekið svo margar dýfur, unnið svo marga sigra, og ævinlega komið standandi niður. Sjálfur hefur hann hefur kallað Bubba gangandi kraftaverk. „Ég tengi við upprisna menn og afturbatapíkur og allt það. Ég fæ innblástur af því að umgangast hann, tala við hann, sjá hvernig hann hefur lent á fótunum eftir þetta allt saman. Og þeim mun meiri innblástur eftir því sem ég kynni mér meira hvað hann fór djúpt, hvað hann var kominn langt út í skurð.“

Afródíta með skutul á Majorka​

Ólafur Egill hitti Bubba Morthens í fyrsta sinn sex eða sjö ára gamall, þá staddur með foreldrum sínum á Majorka. „Við sitjum á ströndinni og ég var eitthvað að horfa út á sjóinn og þá allt í einu kemur maður upp úr löðrinu, bara eins og Afródíta, hrikalegur maður, tattúveraður, og hann er með skutulbyssu og á henni er fiskur. Og ég stari á þennan mann í tíbránni í hitanum á ströndinni. Hann tekur stefnuna á mig og hann nálgast og nálgast og allt í einu gnæfir hann yfir mér, það rennur af honum sjórinn, og hann fer að tala við mömmu og pabba, hann þekkir þau. Og ég bara mæni upp á hann. Ég horfi á fiskinn á skutlinum og þennan mann. Og svo er hann farinn. Og þá sný ég mér að mömmu og pabba og spyr: Hvaða útlendingur var þetta eiginlega? Því hann talaði svo hratt, honum var svo mikið niðri fyrir, að ég skildi ekki orð. Þetta var alveg sýn, þannig að sá Bubbi er líka í uppáhaldi hjá mér.“​

Leikarar í sýningunni Níu líf bregða sér í hlutverk Bubba á hinum ýmsu aldursskeiðum, allt frá bernsku til dagsins í dag. Á sviðinu birtast margir Bubbar, reiði pönkarinn, þjóðlagasöngvarinn, boxarinn, og þannig mætti áfram telja. Með hlutverk gúanó-Bubba og ástfangna Bubba fer Aron Már Ólafsson. Æfingar hafa ekki gengið slysalaust fyrir sig, sjálfur hefur Aron nú þegar slasað sig þrisvar sinnum. Hann segir að Bubbi Morthens sé einfaldlega kóngurinn og hafi alltaf verið. Og afköst hans auðvitað með ólíkindum.

800 lög

„Ég kynnist Bubba bara í gegnum hans vinsælustu lög, þessi stóru lög sem hafa fylgt honum í gegnum tíðina. Það er ekki fyrr en ég byrja í þessu ferli sem ég byrja að hlusta á lög sem ég hafði aldrei heyrt og eignast ný uppáhalds Bubba-lög,“ segi Aron. „Og það er líka í þessu ferli sem ég kemst að því að hann hefur gefið út áttahundruð lög, tala sem maður heyrir frá tónlistarmönnum, eftir mörg ár, að þetta eru lögin sem þeir sitja á kannski, en hann er rosalega duglegur að gefa út lög og hefur alltaf verið." Aron Már Ólafsson segist ætla að fara varlega í sakirnar föstudaginn 13. mars þegar sýningin Níu líf verður frumsýnd í Borgarleikhúsinu. ,,Ja, sjö, níu, þrettán, ég ætla bara rétt að vona að það gerist ekkert á föstudaginn, þetta verði bara rosalega gott, þetta verði bara flott."​

Leikarar í sýningunni Níu líf eru Aron Már Ólafsson, Björn Stefánsson, Esther Talia Casey, Halldóra Geirharðsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Rakel Björk Björnsdóttir, og Valur Freyr Einarsson. Dansarar: Katrín Mist Haraldsdóttir, Sólbjört Sigurðardóttir og Sölvi Viggósson Dýrfjörð. ​

Rætt var við Ólaf Egil Egilsson og Aron Má Ólafsson í Víðsjá.

Tengdar fréttir

Tónlist

Aron Mola varð kjaftstopp þegar Bubbi gekk inn

Tónlist

„Mér finnst þetta pínkulítið óhugnanlegt“

Leiklist

Leikstjóraskipti í söngleiknum um Bubba

Leiklist

Leikrit með lögum Bubba Morthens sýnt 2020