Við erum bara að reyna að hafa gaman

Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson / RÚV

Við erum bara að reyna að hafa gaman

18.06.2019 - 17:25

Höfundar

Halldór Armand telur að í setningunni „Við erum bara að reyna að hafa gaman“ felist einhver æðri sannleikur um mannkynið. Hún lýsi aðdáunarverðri staðfestu og ásetning, en sé um leið viðurkenning á að líkurnar séu ekki með okkur í liði og að við ofurefli sé að etja.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Ég heyrði einu sinni góða sögu úr lögreglunni frá fyrstu hendi. Tveir lögreglumenn aka fram á bílalest af fjórum jeppum undir þekktu fjalli á Vesturlandi og sjá að íslenski fáninn hefur verið hengdur utan í gluggana svo hann blaktir í vindinum. Í 6. grein laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldamerkið frá 17. júní 1944 segir: „Þjóðfánann skal draga að húni á þar til gerðri stöng.“ Í 10. grein segir svo: „Lögreglan skal hafa eftirlit með því, að enginn noti þjóðfána, sem er ekki í samræmi við ákvæði laga þessara.“

Lögreglumennirnir litu hvor á annan áður en þeir settu sírenurnar í gang, sneru bílnum við og hófu að elta uppi bílalestina sem svo gróflega hafði brotið gegn fánalögnunum um hábjartan dag. Sagan er þó ekki svo góð að jeppalestin hafi sett í fimmta gír og reynt að flýja lögregluna með fánana strekkta í vindinum. Nei, lögreglubíllinn brunaði fram úr þeim með bláu ljósin blikkandi og gaf þeim til kynna að beygja út í vegarkant sem þeir og gerðu. Annar lögreglumannana gekk síðan að fremsta jeppanum og sá að þrjú börn sátu í aftursætinu. Bílstjórinn skrúfaði niður rúðuna og var augljóslega mjög pirraður.

„Góðan daginn,“ segir lögreglumaðurinn. 

„Já, blessaður,“ svarar bílstjórinn.

„Ég sé að þið eruð með hérna fána ofan á bílnum.“

„Já, við erum leiðinni hérna upp á jökul með hérna krakka úr sumarbúðum, þau eru búin að hlakka hérna til lengi, krakkarnir. Við erum bara að reyna að hafa gaman.“

„Já, þið megið það alveg en þið verðið að taka niður fánana.“

Dýrðlegur vanmáttur

Þar við sat. Bílstjórarnir stigu út úr jeppunum og fjarlægðu fánana áður en þeir gátu haldið för sinni áfram. Allar götur síðan þetta gerðist hefur þessi magnaða setning – „Við erum bara að reyna að hafa gaman“  – verið mikil eftirlætissetning hjá mér og öðrum sem þekkja þessa sögu vegna þess að hún fangar einhvern frábæran sannleika um miklu stærra fyrirbæri en sumarbúðaferðina upp á jökulinn. Ég fæ iðulega skilaboð sem vitna í þessi fleygu orð bílstjórans. Ég kannski sendi á vin eða vinkonu: „Hvað ertu að gera?“ og fæ svarið: „Ég er bara að reyna að hafa gaman.“ „Ég er niðri í bæ að reyna að hafa gaman.“ „Ég er á leiðinni á tónleika þar sem ég ætla að reyna að hafa gaman.“ „Ég er að reyna að hafa gaman í útilegu.“ 

Það er þessi dásamlega uppgjöf, þessi dýrðlegi vanmáttur, sem felst í sögninni „að reyna“ sem gerir setninguna í senn ómótstæðilega og margbrotna. Þessi litli vitnisburður um einlægan ásetning bílstjórans en um leið meðvitund hans um að það er við ofurefli að etja, já, það er svolítið eins og hann hafi vitað allan tímann, alveg síðan hann settist upp í bílinn, að það yrði ekki gaman í ferðinni upp á jökulinn, það tækist ekki að hafa gaman, þótt það yrði svo sannarlega reynt, að gamanið væri einhvern veginn dæmt frá byrjun til að mistakast, eitthvert óstöðvandi tilvistarafl myndi koma í veg fyrir að honum tækist að hafa gaman. Ég sé hann fyrir mér festa fánana á bílinn með krakkana hlæjandi og klappandi af eftirvæntingu sér við hlið og líta svo snöggt til himins alvarlegur á svip og hvísla: „Við erum bara að reyna að hafa gaman.“ 

Sömuleiðis er starf lögreglumannsins auðvitað heillandi í þessu tilviki. Ef það er einhver mannleg iðja existensíalískari en að reyna að hafa gaman án árangurs, þá er það að vinna við það að koma í veg fyrir að annað fólki geti haft gaman, leita uppi fólk sem er að reyna að hafa gaman og stöðva það. Þegar lögreglumaðurinn sagði bílstjóranum að taka niður fánann, þá þurfti hann ekki að segja það sem óhjákvæmilega var undirliggjandi í samskiptum þeirra: „Því ef þú tekur ekki niður fánana og heldur áfram að reyna að hafa gaman, þá mun ég beita þig ofbeldi fyrir hönd íslenska ríkisins … já, ef þú heldur áfram að reyna að hafa gaman, kallinn minn, þá mun ég handtaka þig.“

Hlustað á náttúruna í 101 RVK

Sögurnar af fólki sem er að reyna að hafa gaman, en tekst það ekki, eru alls staðar í kringum okkur. Ég sá færslu á netinu nýlega þar sem kona nokkur lýsti því hvernig hún var að reyna að hafa gaman heima hjá sér og grilla. Önnur kona í blokkinni kvartaði og sagði henni að hætta, vegna þess að það kæmi grilllykt inn til hennar. Í hverfisgrúppu á Facebook þakkaði kona nokkur nágrönnum sínum kærlega fyrir að hafa hringt á lögregluna þegar hún og nokkrir góðir gestir sátu úti í garðinum hennar að spjalla og drekka vín. Hún átti afmæli.

Þegar ég sjálfur fór á minn fyrsta húsfund lýstu nokkrir íbúar yfir áhyggjum sínum af því að ókunnug börn úr öðrum húsum færu að leika sér á trampólíni sem til stóð að setja upp í garðinum. Ég heyrði sögu af manni sem lét fjarlægja körfuboltakörfu á svæði nálægt húsinu sínu því hann þoldi ekki hávaðann þegar börn voru að leika sér þar. Ég heyrði sögu af fólki sem spilaði The Doors á götunni um hábjartan dag í miðbæ Reykjavíkur meðan sólmyrkvi gekk yfir og nágranni kallaði til þeirra að slökkva á tónlistinni því hann vildi fá að hlusta á náttúruna í friði. Já, við erum öll að reyna að hafa gaman, en málið er bara að það getur verið svo svakalega pirrandi þegar aðrir eru að reyna að hafa gaman. 

Ég sé fyrir mér grafskrift á legsteini:

Hér hvílir Hjörleifur Friðjónsson, bókhaldari. Hann reyndi að hafa gaman.

Hér hvílir Fanney Ottósdóttir, stjörnufræðingur. Hún reyndi að hafa gaman.

Það er freistandi að draga hér þá ályktun að bílstjórinn hafi einhvern veginn mælt fyrir hönd íslensku þjóðarinnar í heild sinni þegar hann sagðist vera að reyna að hafa gaman á leiðinni upp á jökul. Höfum við ekki reynt og reynt að hafa gaman hérna í meira en þúsund ár meðan vindarnir blása, kuldinn bítur og lagasafnið gildnar? Hvað eru hefðbundin fréttamyndskeið af fólki að borða pulsu og spila minigolf í roki og rigningu á 17. júní annað en skjalfesting á lífsreynslu fólks sem er að reyna að hafa gaman? Var landið ekki numið upphaflega af Norðmönnum sem þegar á botninn er hvolft voru bara að reyna að hafa gaman? 

Útihátíðir eru að mörgu leyti skýrasta birtingarmynd þess þegar Íslendingar reyna að hafa gaman, þegar Íslendingar reyna einu sinni á ári að vera saman utandyra. Einu sinni fékk ég sms sem var sent úr Herjólfi á leiðinni á þjóðhátíð í Eyjum. „Allir í þessum bát eru að reyna að hafa gaman,“ sagði í skilaboðunum. „Það er þess vegna sem við erum hérna, við erum að reyna. Í kvöld verðum við mörg þúsund manns saman í Dalnum, sameinuð í tilraun okkar til að vera manneskjur, sameinuð í tilraun okkar til að hafa gaman.“

Lífið er atrenna að sjálfu sér

Já, líklega var bílstjórinn nefnilega ekki bara talsmaður íslensku þjóðarinnar þegar hann horfði vonsvikinn í augu lögreglumannsins. Þarna mælti hvorki meira né minna en sjálf mennskan, sem stendur utan við tíma, stað og sögu. Þarna mælti sjálft hjarta mannsins sem þráir, elskar og vonar og berst dag hvern hetjulega fyrir eigin tilverurétti frammi fyrir tilvistardómaranum sem grípur það án afláts glóðvolgt við að reyna að hafa gaman. Því hvað er mannleg tilvist annað en nákvæmlega það sem þessi ágæti maður kjarnaði svo listilega þarna undir fjallinu, tilraun til þess að hafa gaman, tilraun til þess að vera til, lífið er atrenna að sjálfu sér, atrenna sem mun næstum því ábyggilega mistakast og renna út í sandinn, vegna þess að það er – eins og bílstjórinn vissi – við ofurefli að etja, það er bara svo fjandi erfitt að komast upp með það að hafa gaman, það er svo margt sem þarf að ganga upp, svo margar hindranir í veginum, svo margt sem má ekki og er bannað, svo mikið af skyldum og óskrifuðum reglum, svo margir aðrir sem eru líka að reyna að hafa gaman. 

Árið 1977 sendi NASA gullplöturnar svokölluðu út í geim. Þær geyma hljóð og myndir frá plánetunni jörð sem geimverur geta kynnt sér, þar á meðal Brandenborgar-konsert númer 2 í F-dúr eftir Bach. Ég efast ekki um að þetta sé gott stöff á þessum plötum. Geimverurnar verða örugglega einhverju nær við að spila þær. En ef við hefðum virkilega viljað segja þeim hvað það er að vera manneskja, en ekki bara senda þeim Greatest Hits-disk, þá hefðum við kannski bara átt að senda þeim myndband af manni að hengja þjóðfána utan í Mitsubishi Pajero-jeppa, myndband af manni á leiðinni með hressa krakka upp á jökul, myndband af manni að reyna að hafa gaman í veröld, sem vill ekki leyfa honum það.

Tengdar fréttir

Pistlar

Varnarræða fyrir melankólíuna

Pistlar

Er umheimurinn til í íslenskum fjölmiðlum?

Pistlar

Lækið og þér munið finnast

Pistlar

Að þrá úr fjarlægð