Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Við eigum í stríði og öndunarvélar eru vopnin okkar“

29.03.2020 - 15:46
epa08324529 A Hospital staff  member wears a protective face mask and shield outside at Mount Sinai West Hospital in New York, New York, USA, 26 March 2020. New York City is now an epicenter of coronavirus COVID-19, the disease caused by the virus, New York City has reported over 20,000 confirmed cases and 280 deaths.  EPA-EFE/PETER FOLEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Borgarstjóri New York borgar segir að birgðir af heilbrigðisgögnum dugi borgarbúum fram á næsta sunnudag. Yfirmaður smitsjúkdómastofnununar Bandaríkjanna segir að fleiri en 100 þúsund Bandaríkjamenn gætu látist í kórónaveirufaraldrinum.

 

„Við eigum í stríði og öndunarvélar eru vopnin okkar,“ sagði Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar í ávarpi í dag. 

Hann segir öndunarvélar mikilvægustu hjálpargögnin, en af þeim sé ekki til nóg, haldi smit áfram að breiðast út jafn hratt og undanfarna daga. Í raun segir de Blasio að skortur á öndunarvélum og öðrum hjálpargögnum sé yfirvofandi og verði að raunveruleika að viku liðinni. 

Tæplega 125 þúsund hafa greinst með kórónuveirusmit í Bandaríkjunum, ríflega þriðjungur þeirra í New York ríki. 

Anthony Fauci, yfirmaður smitsjúkdómastofnununar Bandaríkjanna, sagði í viðtali á CNN í dag að svo gæti farið að milljónir Bandaríkjamanna komi til með að smitast af veirunni og að fleiri en 100 þúsund gætu látið lífið í faraldrinum.