Að sögn Jóhannesar hefur undirbúningur fyrir stóra kvöldið gengið vel, þó hafi komið á óvart hve mikinn tíma hann taki fyrir nokkurra sekúndna útsendingu.
„Þetta er meiri tími en ég hélt sem fer í þetta. Þetta er eins og kvikmynda- og sjónvarpsbransanum. Ég er á skjá í 5 til 10 sekúndur og var við undirbúning í allt gærkvöld og búinn að vera hérna í tvo tíma við æfingar.“
Gengið hafi vel en það sama megi ekki segja um undirbúning nokkurra annarra Evrópuþjóða. „Ég heyri í samskiptunum hjá hinum þjóðunum, nokkur lönd eru búin að vera með vesen. Það eru sömu lönd og voru í vandræðum í gær.“
„Þetta er allt annað en leiðinlegt, ég er hérna með tvö börn og hund með mér. Ég er orðinn dálítið stressaður, ef hjartað fer ekki af stað er hætta á að maður verði kærulaus. Það er eðlilegt að vera stressaður.“ Börn hans, Ólöf Harpa og Stefán Haukur voru föður sínum til halds og trausts við æfingu í dag ásamt fjölskylduhundinum Hlyni.
Jóhannes segist ekki ætla að klæðast Hatarabúningi í kvöld og ekki verða með ól. Hann verði engu að síður í þematengdum klæðnaði eins og hann orðar það. Snyrtimennskan sé þó í fyrirrúmi.
„Ég horfi alltaf á keppnina og hef gert síðan Ísland hóf þátttöku. Við höfum tvisvar fengið að bragða á sigri, það er kominn tími á okkur. Ég held að við séum komin að þeim tímapunkti að við vinnum, við erum með nýstárlegt atriði og flott.“
„Við eigum besta sénsinn með besta atriðið. Rísum upp úr öskustónni.“
Norska og ástralska atriðið hafa heillað Jóhannes og ef það síðarnefnda vinnur gæti Ísland haldið keppnina en orðrómar um það hafa verið á kreiki.