Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Við ætlum okkur að koma okkur í gegnum þetta“

bogi nils bogason forstjóri icelandair
 Mynd: RÚV/Kiddi
Uppsagnir sem tilkynnt var um hjá Icelandair í morgun eru sársaukafullar en nauðsynlegar aðgerðir. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins. Hann segir að með þessum aðgerðum sé launakostnaður lækkaður verulega, sem skipti gríðarlegu máli fyrir rekstur félagsins. Félagið ætlar að nýta sér einhverjar þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti um helgina, segir Bogi. Flugferðir núna eru um 14% af því sem áætlað var. 

Um 240 starfsmönnum Icelandair verður sagt upp störfum og 92% starfsmanna fyrirtækisins munu fara í skert starfshlutfall tímabundið. Þetta kom fram í tilkynningu sem Icelandair sendi fjölmiðlum í morgun. Heildarfjöldi stöðugilda hjá Icelandair Group var að meðaltali 4.715 í fyrra. Engum sem eru í áhöfnum Icelandair var sagt upp, heldur verður starfshlutfall þeirra starfsmanna skert.

„Eins og kemur fram í tilkynningu okkar til kauphallar, þá erum við að skala niður okkar starfsmannafjölda vegna þess að við erum að fljúga miklu minna en við gerðum ráð fyrir á þessum tímapunkti, út af því að eftirspurnin eftir flugi og ferðaþjónustu hefur minnkað gríðarlega út af COVID-19 faraldrinum,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við fréttastofu.

„Þetta eru í rauninni þrenns konar aðgerðir. Annars vegar að fólk fari í hlutastörf eða í tímabundið launalaust leyfi. Númer tvö erum við því miður að fara í uppsagnir og í þriðja lagi er það þar sem fólk er að vinna í 100% starfi, þar tekur fólk á sig launalækkanir.“

Ekkert annað að gera

Er hægt að lýsa því, hvernig ykkur líður þegar þið takið þessa ákvörðun?

„Eins og við höfum sagt í viðtölum undanfarið, þá var alveg ljóst að félagið þyrfti að fara í erfiðar og sársaukafullar aðgerðir. Við vorum að gera það núna og okkur líður alls ekki vel með það. Við erum að sjá á eftir frábærum samstarfsmönnum. En það er því miður ekkert annað að gera í stöðunni. Tekjugrunnur flugfélaga og ferðaþjónustufyrirtækja hefur í rauninni hrunið á undanförnum dögum og vikum og það verður að bregðast við því, til þess að við komumst í gegnum þetta klakklaust, það er okkar ábyrgð og verkefni að gera það.“

Þessar uppsagnir - ganga þær þvert yfir línuna?

„Já. Þetta er víðs vegar í félaginu, uppsagnirnar eiga sér stað víðs vegar í félaginu. Síðan eru hlutastörf og tímabundin launalaus leyfi, þau munu líka eiga sér stað alls staðar í fyrirtækinu,“ segir Bogi, en þeim sem eru í áhöfnum hjá Icelandair verður þó ekki sagt upp störfum.

Hvenær taka þessar uppsagnir gildi?

„Það er misjafnt. Fólk er með uppsagnarfrest, það er aðeins misjafnt hvernig það er en í rauninni fer uppsagnarfresturinn að telja frá og með næstu mánaðarmótum.“

Enn frekari aðgerðir framundan

Hvað sjáið þið fram á að ná mikilli hagræðingu með þessu í krónum talið?

„Við erum að lækka launakostnað verulega næstu mánuði með þessu. Við höfum ekki gefið út fjárhæðina en þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkar rekstur og fjárflæði. Og við verðum að takmarka útflæði fjármagns eins og hægt er. Og við erum að gera það núna þannig að þetta skiptir mjög miklu máli.“

Heldurðu að þetta dugi til þess að bjarga félaginu?

„Við erum í margháttuðum aðgerðum eins og kom fram í tilkynningu okkar, bæði hvað varðar þennan kostnað og að aðlaga leiðarkerfið. Við erum að fljúga mjög lítið núna, erum komin í 14% af áætluðu framboði, eins og það átti að vera. Og það mun minnka meira. Og við erum að grípa til enn fleiri aðgerða. En lausafjárstaðan var sem betur fer sterk þegar þetta skall á okkur. En það er ekkert félag sem þolir mjög langan tíma án tekna. En stefna okkar kveður á um að geta lifað í þrjá mánuði án tekna og við erum enn á þeim stað og við ætlum okkur að koma okkur í gegnum þetta.“

Sjáið þið fram á að nýta ykkur aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem voru kynntar um helgina?

„Já klárlega, við sjáum fram á það. Það sem við erum að gera núna í starfsmannamálunum varðandi hlutastörfin, þar er verið að nýta aðgerðir ríkisstjórnarinnar og við munum svo vinna með ríkisstjórninni varðandi hinar aðgerðirnar sem voru kynntar á sunnudaginn.“

Kemur til greina að taka brúarlán eða að fresta greiðslu gjalda?

„Við erum að setjast yfir þetta allt saman sem kom frá ríkisstjórninni og munum klárlega vinna með allt og nýta okkur allt sem þar er. Það er ekki spurning.“

Þegar það fer að rétta úr kútnum, eruð þið þá klár í að fara að fljúga aftur?

„Já að sjálfsögðu. Og þessar aðgerðir núna miða að því að búa okkur undir það versta en tryggja ákveðinn sveigjanleika þannig að við getum stokkið af stað aftur þegar lífið verður eðlilegt á ný og markaðir taka við sér. Þannig að það er fókusinn okkar í þessum aðgerðum, að við verðum tilbúin til þess að stökkva af stað þegar eftirspurnin kallar eftir því,“ segir Bogi.