Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vetur sá kemur er kallaður er fimbulvetur

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons
Fólk byggði ekki hús, það jarðaði ekki ástvini sína, margra alda þekking á bæði gull- og járnsmíði glataðist. Á rúmlega hundrað ára tímabili, frá árinu 536 til 650 virðist sögunni ekkert hafa undið fram í Noregi og Svíþjóð. Það hafa fáar minjar fundist frá þessum tíma en hvers vegna? Þegar vísindamenn fóru, á níunda áratug síðustu aldar, að skoða þetta tímabil í ljósi gamalla goðsagna um fimbulvetur fóru brotin að raðast saman.

Fimbulvetur í Kalevala og Snorra-Eddu

„Vetur sá kemur er kallaður er Fimbulvetur. Þá drífur snær úr öllum áttum. Frost eru þá mikil og vindar hvassir. Ekki nýtur sólar. Þeir vetur fara þrír saman og ekki sumar milli.“ 

Þessa lýsingu er að finna í Snorra-Eddu. Í norrænni goðafræði er fimbulvetur sagður undanfari Ragnaraka, þess að heimurinn líði undir lok. Í finnska þjóðkvæðinu Kalevala er sams konar lýsingu að finna. Nú bendir margt til þess að fimbulvetur sé engin goðsögn. Fjallað er um þetta í grein á norræna vísindavefnum Science Nordic.

Mynd með færslu
 Mynd: pxfuel
Norrænum sögnum ber saman.

Þrjú eldfjöll liggja undir grun

Gögn sem safnað hefur verið undanfarna áratugi benda til þess að miklar hamfarir hafi gengið yfir Svíþjóð og Noreg, fyrir einu og hálfu árþúsundi, áður en Ísland byggðist. Líklega hafa Eystrasaltslöndin, Pólland og Norður-Þýskaland líka orðið illa úti. 

Talið er að tvö stór eldgos hafi valdið sólarleysi og skyndilegri kólnun loftslags. Annað árið 536, hitt árið 540. Um nokkurra ára skeið hafi eldfjöllin spúið miklu magni af fíngerðu ryki út í andrúmsloftið, þetta ryk hafi skyggt á sólu og valdið því að það snöggkólnaði. Þrjú eldfjöll liggja helst undir grun: El Chichón í Mexíkó, Krakatau í Indónesíu og Llopango í El Salvador. Í kjölfarið er talið að það hafi orðið uppskerubrestur og stór hluti íbúa Skandinavíu hafi dáið. Það má kannski líkja þessu við móðuharðindin á Íslandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: needpix
Kornuppskeran brást líklega.

Fornleifafræðingar fundu engar sannanir

Hugmyndin um að fimbulvetur hafi raunverulega átt sér stað er ekki ný. Árið 1910 setti sænski landfræðingurinn Rutger Sernander fram tilgátu. Hann taldi að loftslagshamfarir fyrir um tvö þúsund árum hefðu orsakað miklar vetrarhörkur, fornleifafræðingar lögðust yfir þetta í nokkur ár en fundu ekkert sem benti til slíkra hamfara á þessu tímabili. Svo leið og beið.

Drógu upp mynd af hörmungartímum og vitnuðu í Snorra

Árið 1983 gáfu vísindamenn hjá NASA út grein þar sem reynt var að varpa ljósi á eldgos og eldvirkni langt aftur í tímann með því að rannsaka ískjarna úr Grænlandsjökli. Fornleifafræðingar sem lásu greinina áttuðu sig á því að eitthvað mikið hlyti að hafa gerst árið 536. Bo Gräslund, sem þá var prófesssor í fornleifafræði við Uppsala-háskóla í Svíþjóð, taldi ljóst að fimbulvetur hefði átt sér stað á árunum eftir 536 og vísaði meðal annars í Snorra-Eddu því til staðfestingar, Snorri hafi ekki einungis talað um snjóþunga og kalda vetur, heldur samfelldan vetur í þrjú ár, það komu engin sumur. Gräslund setti líka fram þá tilgátu að í Svíþjóð hefði íbúafjöldi helmingast á 6. öld eftir Krist. Árið 2007 birtist eftir hann grein í sænska tímaritinu Saga och sed og eftir það fór boltinn aftur að rúlla, vísindamenn lögðust yfir gögn sem lágu fyrir og leituðu nýrra, með því að einbeita sér að ákveðnu tímabili tókst þeim að draga upp mynd af hörmungartímum. Tímum þar sem bújarðir voru yfirgefnar. Fólk hraktist á brott eða dó. Það finnast nær engar grafir frá þessu tímabili en fólk færði guðunum meiri fórnir en áður, líklega í von um betri tíð. 

Gegnfrosnir trjástofnar

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Raknehaugen.

Frjókorn sem varðveittust í mýrum benda til þess að loftslag hafi breyst skyndilega. Árhringjarannsóknir á trjádrumbum sem fundist hafa í Raknehaugen-grafreitnum í Noregi, sýna að árið 536 og árin þar á eftir voru rýr. Vísindamenn vonast til þess að geta með betri tækni varpað ljósi á tíðarfarið þessi sumur, viku fyrir viku. Rannsóknir benda til þess að í Rússlandi hafi tré verið gegnfrosin um mitt sumar. Sumarið 536 virðist meðalhiti hafa verið þremur til fjórum gráðum lægri en árin á undan, líklega hafa komið mjög kaldir kaflar og svo aðrir hefðbundnari á milli. Svona var þetta áfram næstu sumur. Árið 540 kólnaði aftur. En það var ekki bara kuldinn. Sólarljós var takmarkað og uppskera brást. 

Stöðugur sólmyrkvi í Istanbúl

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Áhrifanna virðist hafa gætt mun víðar en í Skandinavíu.

Það eru ekki til neinar ritaðar heimildir frá þessum tíma á Norðurlöndum en ítalski sagnfræðingurinn Flavius Cassidorus lýsir árinu 536 á þann veg að himininn hafi verið alsettur dökkum skýjum og sólar aðeins notið við í nokkra klukkutíma á dag, í Kína eru ritaðar heimildir um snjókomu að sumri og í Konstantínópel, nú Istanbúl, skrifaði sagnfræðingurinn Prokopios um stöðugan sólmyrkva. Árið 541 kom sjöttu aldar plágan svo til Evrópu. Hún var kennd við Justinian Rómarkeisara og var á pari við svarta dauða. Drap 40% íbúa Istanbúl. Nýlegar rannsóknir benda til þess að hún hafi náð til Þýskalands, og því ekki talið ólíklegt að hún hafi líka geisað í Noregi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Frosthörkur.

Ræktarland hvarf undir trjágróður

Rannsóknir á frjókornum í jarðvegi, nærri bænum Stryn á vesturströnd Noregs, benda til þess að fyrstu fimm aldirnar eftir Krist hafi þar verið graslendi og lágreistur trjágróður en svo hafi magn grasfrjóa minnkað verulega og trjágróður tekið yfir ræktarland. Kari Loe Hjelle, prófessor í náttúrusögu við háskólann í Bergen, segir að þarna hafi verið búið frá því á steinöld, í það minnsta yfir sumarið. Fólk hafi lagt stund á landbúnað en svo hætt því á sjöttu öld, það sjáist meðal annars á því að kolaryk finnst ekki í jarðlögum frá þeim tíma.

Áður iðaði Rogaland af lífi

Frode Iversen, prófessor í fornleifafræði við menningarsögusafnið í Osló segir að það hafi legið fyrir um nokkurra áratuga skeið að um miðja fyrstu öld eftir Krist hafi mikill fjöldi bújarða lagst í eyði. Fornleifafundir frá þessum tíma eru rýrir, mun rýrari en á tímabilinu á undan sem kennt er við fólksflutninga.

Áður iðuðu svæði eins og Rogaland af lífi, svo var eins og allt fólk hyrfi á braut. Fræðimenn tala um hundrað ára þögn, frá árinu 536 og allt fram til ársins 650 finnst varla neitt. Þá virtist lífið komast aftur í samt horf, en tæknin sem fólk notaði, við járnsmíði til dæmis, var öðruvísi og ekki jafn þróuð. Í Rogalandi höfðu áður verið færir gullsmiðir, þekking þeirra tapaðist og það liðu þúsund ár þar til Norðmenn náðu aftur fyrri færni í járnsmíði. 

Mynd með færslu
 Mynd: piqsels
Norðmönnum fór aftur í járnsmíði.

 

Völd færðust til

Fræðimenn telja að minni jarðir hafi verið yfirgefnar og stærri, gjöfugri jörðum skipt upp. Þeir sem lifðu af gátu hugsanlega lagt undir sig stærri landsvæði og gögn benda til þess að búfjárrækt hafi færst í aukana á síðari hluta sjöttu aldar. 
Valdahlutföllin í samfélaginu breyttust og rannsóknir á Raknehaugen, stórum grafhaug í Noregi, benda til þess að fækkað hafi í röðum hinna ríku og valdamiklu og meiri völd og auður færst í hendur færra fólks. Rannsóknir í Svíþjóð benda til þess að sams konar þróun hafi orðið þar. 

Áður töldu vísindamenn að athafnaleysið í Noregi á sjöttu öld mætti rekja til plágunnar. Nú telja þeir að tvennt hafi farið saman. Págan og fimbulvetur, margir í röð.  

Fimbulveturnir verða líklega fleiri

Koma fleiri fimbulvetur? Stór eldgos geta haft áhrif á loftslagið, leitt til kólnunar, oftast um eins til þriggja ára skeið. Slík eldgos verða reglulega þó 20. öldin hafi verið laus við þau og sú 21. enn sem komið er. Í grein Science Nordic segir ljóst að slík gos verði aftur, og þá þurfi að fæða fleiri munna í heiminum en árið 536, hins vegar séum við með nútímatækni betur í stakk búin til þess að takast á við afleiðingarnar en norrænir bændur voru á sjöttu öld. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV