Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vetrarfærð og vegir víða lokaðir

23.01.2020 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Veðrið hefur áhrif á færð víða um land. Óvissustig er á vegum á Suðvesturlandinu og gætu þeir lokað fyrirvaralaust. Á Vestfjörðum eru vegir víða lokaðir og beðið með mokstur vegna veðurs. Ferðir Strætó á landsbyggðinni falla niður.

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og víða slæmt ferðaveður um vestan og norðvestanvert landið. Víðast hvar eru hálka eða hálkublettir, mjög hvasst og gengur á með mjög dimmum éljum.

Á Suðvesturlandinu er Óvissustig er á Mosfellsheiði, Hellisheiði og Þrengslum og gætu þeir vegir lokað með stuttum fyrirvara.

Þæfingasfærð er í Svínadal og á Vestfjörðum er vegurinn um Þröskulda, Klettsháls, Hálfdán, Súðavíkurhlíð og Steingrímsfjarðarheiði lokaður og beðið með mokstur vegna veðurs.

Á Norðurlandi er lokað um Þverárfjall og Öxnadalsheiði vegna veðurs. Búið er að opna veginn um Vatnsskarð. Þá er mjög slæmt ferðaveður frá Akureyri til Húsavíkur og frá Akureyri austur að Mývatni. Þar er mjög hvasst og blint, einnig er mjög blint á Vopnafjarðarheiði. Óvissustig er á Lyngdalsheiði og gæti vegurinn lokað fyrirvaralaust.

Ferðir Strætó falla niður

Ferðir strætó á landsbyggðinni, leið 51, 52 og 57, falla niður þar til annað verður tilkynnt. Það eru ferðir frá Reykjavík að Höfn, frá Reykjavík til Landeyjarhafnar, og frá Reykjavík til Akureyrar. Leið 78 frá Akureyri til Siglufjarðar hefur líka verið aflýst þar til annað verður tilkynnt.