Vetraraðstæður um land allt

09.12.2019 - 21:54
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Vetraraðstæður eru um land allt, segir á vef Vegagerðarinnar. Gul viðvörun er nú í gildi á Austurlandi, Austfjörðum og Norðausturlandi. Fjarðarheiði og Fagradal hefur verið lokað vegna veðurs. Þar er ekkert ferðaveður. Þá er ófært á Breiðdalsheiði og um Öxi. Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Austurlandi og eitthvað um skafrenning.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er viðvörunin í gildi vegna hvassviðris, skafrennings og snjókomu. Búist er við því að það lægi um klukkan fjögur í nótt en ekki lengi því gert er ráð fyrir að appelsínugul viðvörun taki gildi snemma á miðvikudagsmorgun. Á vef Veðurstofunnar segir að færð geti auðveldlega spillst, og ferðaveður verið slæmt á fjallvegum.

Vetrarveður og -færð er um alla Vestfirði og þæfingur víða á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegir um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði er lokaður og ófært er norður í Árneshrepp. Þá er víða hálka eða snjóþekja á vegum á Vesturlandi og töluverður éljagangur í Dalasýslu og suður í Borgarfjörð. 

Mögulega verða fleiri vegir lokaðir næstu daga á meðan veðrið gengur yfir. Á vef Vegagerðarinnar segir að reynt verði eftir fremsta megni að halda aðalleiðum opnum.

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi