Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

VesturVerk heldur sínu striki þrátt fyrir kæru

27.06.2019 - 11:00
Mynd: RÚv / RÚV
VesturVerk hyggst halda sínu striki með undibúningsframkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar þrátt fyrir kæru sem byggir á því að Hvalárvirkjun miði við röng landamerki.

Telja sig eiga landið

Meirihluti landeigenda í Drangavík á Ströndum kærði leyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum VesturVerks vegna Hvalárvirkjunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. „Landeigendur í Drangavík munu ekki heimila virkjun,“ segir Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og talsmaður landeigenda. „Samkvæmt landamerkjum frá 1890 eiga þeir þetta land sem að Eyvindarfjarðarárveita tekur til svo þeir eiga klárlega kærurétt því þeir eiga landið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og talsmaður landeigenda

Finnst að það eigi að vísa kærunni frá

„Við teljum núna, eins og staðan er núna, að þessari kæru hljóti að verða vísað frá því að hún lítur þannig út að hún sé ekki traustum grunni byggð. En svo er það annara að skera úr um það,“ segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi VesturVerks. „Við höfum nú skoðað þessi títtnefndu landamerki sem að vísað er í, frá 1890, og við túlkum þau ekki á sama hátt og kærendur gera.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Landamerkjaskrá
Landamörkin byggja á lýsingum fyrir Engjanes og Ófeigsfjörð

Fengu landamörk dregin upp

Landeigendur miða við þinglýsta landamerkjaskrá frá 1890 og byggja á lýsingum á jörðunum Engjanesi og Ófeigsfirði á Ströndum. Snæbjörn segir landamerkin ekki vera túlkunaratriði. „Nú fengu landeigendur semsagt sérfræðing í landamerkjum ti lað fara yfir og draga upp línur á korti og það hefur ekki verið gert áður og er ekki í þeim gögnum sem að Hvalárvirkjun er byggð á.“ Mikill munur er á jarðamörkunum sem landeigendur og VesturVerk miða við. Birna segir VesturVerk byggja skipulag virkjunarinnar á jarðarmörkum úr opinberum gögnum sem Snæbjörn segir ekki hafa lagalega þýðingu. „Allstaðar í þessum gögnum þar sem er vísað í þessi gömlu röngu mörk þá segir að þau séu dregin án ábyrgðar.“ Dæmi um þetta má sjá í matsskýrslu VesturVerks á blaðsíðu 15 en nánar má lesa um gild landamerki á heimasíðu þjóðskrár.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurgeir Skúlason - Aðsend
Mikill munur er á jarðarmörkunum sem deilt er um

Hafa ekki fengið athugasemdir um þetta áður

VesturVerk hefur undirbúið Hvalárvirkjun í þrettán ár og vatnasviðið sem deilt er um gegnir mikilvægu hlutverki í virkjunaráformunum. Birna bendir á að fyrst nú komi þessar upplýsingar fram hjá kærendum. Snæbjörn segir að landeigendur hafi gert „Landeigendur bjuggust við því kannski að virkjunaraðilar hefðu þetta á hreinu gerðu ráð fyrir því að virkjunaraðilar hefði verið kannað í upphafi en kom svo á daginn að það reyndist ekki vera.“ - „Það hefði þá þurft að, opinberar stofnanir eða sveitarfélag að vekja máls á því en það hefur ekki verið gert,“ segir Birna.

Halda áfram framkvæmdum

Landeigendur hafa farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan kæran er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Nefndin tekur þá beiðni fyrir svo hratt sem verða mál. „Þar til að einhver niðurstaða kemst í þetta mál, hvort sem að það er úrskurðarnefndin eða einhverjir aðrir sem fjalla um það þá getum við haldið okkar striki. Og við gerum það.“ VesturVerk tók nýlega yfir veghald á Ófeigsfjarðarvegi þar sem framkvæmdir eru hafnar. „Sjálfar rannsóknirnar fara fram næsta sumar, framkvæmdaleyfið kom svo seint. Það sem við erum að ráðast í núna er lítilsháttar og ekkert sem er ekki afturkræft,“ segir Birna.