Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

VesturVerk: Hafa fylgt tilsettum ferlum

12.07.2019 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Upplýsingafulltrúi VesturVerks segir fyrirtækið hafa fylgt tilsettum ferlum í undirbúningi Hvalárvirkjunar, sem opinberar stofnanir hafi staðfest. Óboðlegt sé að leggja megi viðstöðulaust steina í götu verkefnisins. Hún segir landeigendur sem hafa mótmælt virkjuninni vera lítinn hluta landeigenda.

 

Hópurinn lítill hluti landeigenda

Þrjátíu landeigendur í Árneshreppi sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem virkjunaráformum sem raska Drangajökulsvíðernum er mótmælt. Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi VesturVerks segir hópinn aðeins lítinn hluta landeigenda. Fylgjendur virkjunarinnar, tækju þeir sig saman, gætu vel verið fleiri. „Það er bara stór eigendahópur að jörðum norður í Árneshreppi. Þeir sem og allir aðrir hafa haft mjög greiðan aðganga að öllu umsagnarferli í tengslum við Hvalárvirkjun, í gegnum rammaáætlun, í gegnum umhverfismat og breytingar á aðal- og deiliskipulags.“

Hafi fylgt tilsettum ferlum

Birna telur ólíklegt að stjórnvöld taki undir yfirlýsingu landeigenda gegn virkjununum. Ef þau geri það setji það rammaáætlun í uppnám þar sem Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki. Fimm kærur í tengslum við Hvalárvirkjun hafa komið á borð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, að hluta til frá sama fólki og skrifar undir yfirlýsinguna. VesturVerk vinnur nú að umsögnum um kærurnar. Birna segir fyrirtækið hafa fylgt tilsettum ferlum, lögum og reglum, sem opinberar stofnanir hafi staðfest. „Það er ekki boðlegt að það sé viðstöðulaust hægt að leggja stein í götu svona verkefna,“ segir Birna.

Halda ótrauð áfram

„Við metum það svo að við höfum gert allt rétt í þessum framkvæmdum og munum halda áfram framkvæmdum um leið og við getum,“ segir Birna. Framkvæmdir voru stöðvaðar til að ganga frá skráningu fornleifa. Málið er í vinnslu hjá Minjastofnun en Birna á von á því að framkvæmdir hefjist á ný eftir helgi.