Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vesturbær Reykjavíkur gerður að réttindahverfi

Mynd: UNICEF / UNICEF
Alþjóðadagur barna er haldinn hátíðlegur í dag í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna víða um land. Í Salnum í Kópavogi voru haldnir tónleikar skólahljómsveitar Kópavogs þar sem tónlistin var tengd Barnasáttmálanum.

Meðal þess sem Kópavogsbær leggur áherslu á í dagskránni eru umhverfis- og loftslagsmál.

„Þau tengjast bara mjög sterkt og snertifletirnir við Barnasáttmálans eru mjög margir,“ segir Ríkey Hlín Sævarsdóttir, verkefnastjóri hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs, spurð hvernig þessi málefni tengist Barnasáttmálanum.

Um 450 krakkar í áttunda bekk fengu fræðslufyrirlestur um umhverfis- og loftslagsmál í Kópavogi og unnu verkefni tengd þeim. Markmiðið var að sögn Ríkeyjar að hlusta eftir hugmyndum þeirra og valdefla börnin.

Vesturbærinn orðinn að réttindahverfi

Í vesturbæ Reykjavíkur voru grunnskólarnir Grandaskóli, Melaskóli, Hagaskóli og Vesturbæjarskóli, frístundaheimilin Undraland, Selið, Frostheimar og Skýjaborgir, auk félagsmiðstöðvarinnar Frosta, sæmdir viðurkenningu UNICEF. Hverfið í vesturbænum er nú fyrsta réttindahverfi landsins þar sem allir skólar þess hafa hlotið þessa viðurkenningu.

Í tilkynningu UNICEF er haft eftir Bergsteini Jónssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, að barnasáttmálinn hafi breytt lífum ótal barna til hins betra. „Nú eru forsendur hans orðnar útgangspunktur allra ákvarðana í metnaðarfullu skóla- og frístundastarfi þessara skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvar.“

„Réttindaskólar og Réttindafrístund UNICEF hjálpa okkur við að tryggja skuldbindingu okkar og komandi kynslóða fyrir áframhaldandi baráttu fyrir réttindum barna. Nærumhverfi barna eins og hér um ræðir er frjóasti svörðurinn fyrir þeirri réttindabaráttu,“ segir Bergsteinn.

Skólarnir auka virðingu og vernd mannréttinda

Í tilkynningu UNICEF segir að réttindaskóli og réttindafrístund sé hugmyndafræði fyrir skóla- og frístundastarf sem byggir á Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og miðar að því að auka virðingu, vernd og innleiðingu mannréttinda. Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna eftir líkaninu leggja sáttmálann til grundvallar í öllu starfi sínu; skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum.

Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV