Vestfjarðaleiðin mótvægi við hringveginn

22.02.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Vestfjarðaleiðin er nafn á nýrri ferðaleið sem spannar 950 kílómetra um Vestfirði og Dalabyggð. Hún verður opnuð samhliða Dýrafjarðargöngum í september.

Vestfjarðaleiðin hefur hingað til verið kölluð Hringvegur 2 og hefur verið í pípunum um nokkurt skeið. Upphaflega einskorðaðist hún við Vestfirði en Dalabyggð bættist við á seinni stigum. Leiðin er hátt í þúsund kílómetrar og liggur um tíu sveitarfélög.

Díana Jóhannsdóttir er sviðstjóri hjá Vestfjarðastofu.

„Við ætlumst ekki til þess að ferðamenn setjist upp í bílinn og keyri bara eftir einhverri ákveðinni leið. Það eru auðvitað ýmsir seglar þarna sem eru við veginn og aðeins þarna spölkorn frá, þannig að við erum að reyna að vekja athygli á því og þessu mótvægi við hringveginn. Að það sé eitthvað annað og við séum kannski með eitthvað upp á að bjóða sem við höfum svo sannarlega,“ segir hún.

Leiðin verður opnuð samhliða Dýrafjarðargöngum í september, sem mun þá leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi. Aðspurð segir Díana að bættar vegasamgöngur á Vestfjörðum séu vissulega eitthvað sem þurfi að horfa til.

„Það á auðvitað við á sunnanverðum Vestfjörðum og það á líka við um Dynjandisheiði og á fleiri stöðum. Við verðum aftur á móti að vinna með það sem við höfum og við ætlum að byrja bara strax í september. Svo bætist við og vegasamgöngur eru alltaf að batna hérna hjá okkur,“ segir Díana.

Fram að því fer fram frekari þróunarvinna með sveitarfélögum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu á leiðinni. Díana segir tækifærin liggja víða á Vestfjörðum.

„Vestfirðir eru minnst heimsótta svæðið á Íslandi en það á alveg ofboðslega mikið inni. Ég held að svona ferðamannaleið hjálpar okkur kannski svolítið að lyfta okkur upp og draga athyglina svolítið að okkur og sýna allt það sem við höfum upp á að bjóða.“

Hér má kynna sér leiðina.

Leiðin spannar 950 kílómetra
elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi