Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vestfirsk slagsíða á Aldrei fór ég suður

Kynningarmynd fyrir tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður 2020
 Mynd: AFÉS

Vestfirsk slagsíða á Aldrei fór ég suður

17.02.2020 - 13:15

Höfundar

GDRN, Hipsumhaps, Mugison, Between Mountains, Páska-Helgi Björns og hljómsveitin Ýr eru meðal þeirra sem koma fram á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður 2020.

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fer fram um páskana, venju samkvæmt á Ísafirði, 10. og 11. apríl í ár. Þau sem fram koma á stóra sviðinu eru Moses Hightower, Kælan mikla, Bríet, Auður, K.óla, Mugison, GDRN, Hermigervill, Vök, Hipsumhaps, Kontinuum, sigursveit Músiktilrauna, Helgi Björnsson, Between Mountains, önfirska hljómsveitin Æfing og hin ísfirska og goðsagnakennda hljómsveit Ýr.

Það telst til tíðinda að Ýr snúi aftur í heimabæinn og komi fram í fyrsta sinn í áratugi. Ýr gaf út hljómplötuna Ýr var það heillin! fyrir hartnær 45 árum, lagið Kanínan gerði það gott af þeirri plötu og flestir sem þekkja það lag eftir að Sálin hans Jóns míns tók það upp á sína arma.

Í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar er vakin athygli á vestfirskri slagsíðu í dagskrá hennar en hana prýða nokkrir fánaberar vestfirskrar tónlistar. Má þar nefna súgfirsku sveitina Between Mountains, hinn ísfirska Helga Björns, súðvíska listamanninn Mugison og önfirsku sveitina Æfingu en í henni er meðal annars Siggi Björns sem gerði lífstíðarsamning við hátíðina á upphafsárum hennar.

Í kynningarmyndbandi sem hátíðin birtir í dag má sjá ýmsa íbúa Ísafjarðarbæjar við sín daglegu störf, þar með talin sóknarprestinn, heilbrigðisstarfsfólk, lögregluna, hafnarstjóra, bæjarstjóra, fólk í þjónustu og við rækjuvinnslu.

Myndbandið á að endurspegla það að hver og einn íbúi sveitarfélagsins taki virkan þátt í veislunni um páskana og Ísafjörður sem og nágrannabyggðarlög bjóði alla velkomna vestur í fjörið. Undir því hljómar lagið Íbízafjörður sem tónlistarmaðurinn Hermigervill gaf hátíðinni í vor. Hermigervill er ættaður úr eynni Vigur í Ísafjarðardjúpi og er sérstakur vinur hátíðarinnar.  

Aldrei fór ég suður er tónlistarhátíð fyrir alla fjölskylduna og einn af stærstu viðburðum Skíðaviku Ísfirðinga. Hátíðin var fyrst haldin árið 2004 og er þekkt fyrir fjölbreytta dagskrá. Nú sem endranær er frítt inn á hátíðina fyrir alla fjölskylduna. Hún fer fram í húsnæði Kampa á Ísafirði, að kvöldi föstudagsins langa og laugardags fyrir páska. Samhliða aðaldagskránni fara fram hliðarviðburðir í sveitarfélaginu sem kynntir verða þegar nær dregur, þar á meðal uppistandskvöld í Ísafjarðarbíói, tónleikar á Suðureyri og Flateyri auk annarra listviðburða.