Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Veruleg hækkun á fermetraverði

24.08.2015 - 19:38
Hólmavík Strandir Vestfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Rúmlega 4.000 íbúðir á Íslandi eru í útleigu til ferðamanna að mati Samtaka atvinnulífsins. Þetta setur þrýsting á fasteignaverð. Verð á fermetra hefur hækkað um meira en hundrað þúsund krónur í fjölbýli síðustu fimm ár í eldri hverfum Reykjavíkurborgar.

Fermetraverð á íbúðum í fjölbýli í miðborginni hefur hækkað um meira en 120 þúsund krónur frá árinu 2010. Sambærileg hækkun hefur einnig orðið í Vesturbænum. Fermetraverð í fjölbýlihúsum í Löndunum í Fossvogi hefur hækkað um 90-100 þúsund krónur og hér í Rimahverfi í Grafarvogi hefur fermetraverð í fjölbýlishúsum hækkað um rúmar sjötíu þúsund krónur.

Það er Þjóðskrá Íslands sem hefur veg og vanda af því að halda saman þróun á fasteignaverði á landinu öllu.

„Þegar við bárum saman tölurnar frá 2010 og til ársins í ár þá sjáum við að þetta eru hverfi sem eru miðsvæðis sem eru að hækka mest. þau hverfi hafa verið að hækka meira en önnur hverfi,“ segir Jón Þór Finnsson, verkfræðingur hjá Þjóðskrá.

Fasteignaverð í allt að tvö þúsund metra fjarlægð frá Lækjartorgi hefur hækkað um rúm 55 prósent. Í tvö til fjögur þúsund metra fjarlægð er hækkunin rúm 50 prósent. Hækkun hefur orðið í öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins og er víðast meiri en 30%. Sérfræðingar hafa sagt að þróun fasteignaverðs sé í takt við önnur umsvif í hagkerfinu. Aukin straumur ferðamanna til Íslands geti átt sinn þátt í þróuninni með tilkomu Airbnb og fleiri sambærilegra leiða til útleigu.

„Við höfum áætlað að þetta séu í kringum 4000-4100 íbúðir hér á landinu öllu. þannig að þetta er verulegur fjöldi fólks sem er að leigja slíkar íbúður og þetta setur þrýsting á leiguverð og smitar út í hækkun kaupverðs, eða fasteignaverðs,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Sömuleiðis bendir Ásdís á íbúðaskort sem skýringu. „Við lendum í þeirri stöðu eftir hrunið að byggingarkostnaður er hærri en fasteignaverðið. Þannig að það er ekki þessi hvati hjá byggingaverktökum til þess að ráðast í nýjar framkvæmdir þannig að það myndast þessi skortur og það hefur skapað þrýsting á fasteignaverð.“

anna.kristin.palsdottir's picture
Anna Kristín Pálsdóttir
Fréttastofa RÚV
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður