Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verslun opnar að nýju í Súðavík

04.10.2019 - 13:58
Myndir teknar með dróna.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Kaupfélagið í Súðavík hefur opnað að nýju, um ári eftir að því var lokað. Þjóðverjinn Matthias Troost rekur verslunina sem opnaði á mánudag, 30. september. Íbúum Súðavíkur var boðið að hafa áhrif á vöruúrval verslunarinnar.

„Ég átti ekki von á þessu. Þetta gerðist mjög hratt, við tókum snara ákvörðun og núna er ég með verslun og það er frábært,“ segir Matthias. Hann segist hafa rekið verslun áður, það sé þó langt síðan. Kaupfélagið verður opið í tvo og hálfan tíma á dag og lokað á sunnudögum.

„Það er mikil þörf á verslun í Súðavík og það var skömm af því hvað það var erfitt að leysa úr því. Það var verslun í öllum þorpum í nágrenninu, nema hérna,“ segir hann. Íbúar Súðavíkur hafa þurft að ferðast til Ísafjarðar til að versla í kjörbúð.

Matthias segist mjög ánægður með verslunina. Þar rekur hann einnig kaffihús og býður upp á veitingar og kaffi. Við opnun bauðst íbúum Súðavíkur að hafa áhrif á vöruúrval með því að senda honum lista yfir það sem þau vildu sjá í Kaupfélaginu. Hann segist vera að læra ýmislegt.

„Ég vissi til dæmis ekki að það væru til svona margar tegundir af mjólk. Ég var ekki vanur þessu í Þýskalandi. Eins og undanrenna, ég vissi ekki hvað það er, en núna veit ég það.“

Matthias flutti til Súðavíkur með Claudiu, konunni sinni, fyrir þremur árum. Þau búa þar með syni sínum sem er í leikskóla.  Áður komu þau til Íslands á sumrin og dvöldu í sumarhúsi sínu í Ísafjarðardjúpi sem þau hafa átt síðan 2010. 

Mynd með færslu
Matthias flutti til Súðavíkur með fjölskyldunni sinni fyrir þremur árum