
„Þar eru stærstu þættirnir gjaldþrot WOW air og yfirtaka á TravelCo sem er ferðaþjónustufyrirtæki sem áður tilheyrði Primera air, almennar niðurfærslur út af efnahagsástandi, hækkun á atvinnuleysi og verri rekstri fyrirtækja í landinu," segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Í einhverjum tilfellum voru lán verðlögð rangt miðað við áhættu. Benedikt segir að nú hafi breytingar verið gerðar á útlánastarfsemi, dregið úr fyrirtækjalánum og einstaklingslán aukin.
„Með öllum reglugerðabreytingum sem hafa átt sér stað hefur hlutverk fjármálafyrirtækja og geta til þeirra að sinna stórum fyrirtækjaútlánum versnað og það eru bara aðrir aðilar betur til þess fallnir að sinna þeirri þjónustu," segir hann.
Uppsagnir hluti af hagræðingu
Spurður um uppsagnir segir Benedikt banka vera stöðugt, eins og öll önnur fyrirtæki, að hagræða í sínum rekstri.
„Við eins og aðrir bankar á Íslandi og annars staðar í heiminum hafa verið að fækka starfsfólki, taka upp stafrænar lausnir, útibúum að fækka og heimsóknum í útibú er að fækka og það er þróun sem mun bara halda áfram," segir hann.
Það kom jafnframt fram í uppgjörinu að Höskuldur Ólafsson, fyrrverandi bankastjóri, fékk 150 milljónir króna við starfslok. Tilkynningin um það kom tveimur mánuðum eftir að tilkynnt var um afkomu bankans 2018, sem var töluvert verri en árið á undan.