Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Verkfallsboðun samþykkt í álveri Rio Tinto

05.11.2015 - 18:03
Mynd með færslu
Iðnaðarvörur voru rúmlega helmingur alls útflutnings.  Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Starfsemi álversins í Straumsvík lamast ef kemur til verkfalls 2. desember. Yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna samþykkti verkfallsboðun. Formælandi starfsmanna segir þá ekki vera í aðgerðum til að loka fyrirtækinu heldur til að bæta kjör.

Sex stéttarfélög hafa staðið saman að kjaraviðræðum við Rio Tinto. Þetta eru Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði, VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna, FIT - félag iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsambandið, VR og Matvís. Langflestir starfsmannanna eru í Hlíf og þvínæst VM. Öll félögin samþykktu verkfallsboðun nema VR. Þar voru sex andvígir verkfalli en fjórir hlynntir. Í hinum voru 75 til 100% þeirra sem greiddu atkvæði hlynnt verkfalli. 

Gylfi Ingvarsson, formælandi samninganefndar stéttarfélaganna, gagnrýnir stjórnendur fyrirtækisins. „Það hefur verið rosalega mikill áróður af hálfu stjórnenda í fyrirtækinu fyrir því sem þeir hafa lagt fram. Þeir vilja meina að það hafi verið misskilningur í gangi varðandi þeirra tilboð og að við hefðum ekki haft fyrir því að upplýsa starfsmenn um það hvernig staðan væri í raun og veru. Þetta hefur gengið svo langt að ég stórefast um að það sé heimilt samkvæmt vinnulöggjöfinni að beita slíkum áróðri á sama tíma og það eru fundir með starfsmönnum og atkvæðagreiðsla í svona stóru máli eins og verkfallsboðun.“

Megindeiluefnið í árangurslausum samningaviðræðum undanfarna mánuði er krafa fyrirtækisins um að fá að bjóða fleiri stöðugildi út í verktöku. „Það er alveg ljóst að þetta eru skýr skilaboð til viðsemjenda okkar að þessi aðferðafræði þeirra varðandi verktöku er alfarið hafnað. Það var nefnilega áður búið að boða allsherjarverkfall og við drógum það til baka út af stórum sögnum frá viðsemjendum okkar að það myndi leiða til þess að fyrirtækinu myndi verða lokað. Þetta er mjög alvarleg staða. Við erum ekki í aðgerðum til þess að loka fyrirtækinu. Við erum í aðgerðum til þess að ná fram leiðréttingu á kjörum okkar.", segir Gylfi. 

Verkfallið ef af verður nær til um 300 af 400 starfsmönnum álversins. Samningafundur er boðaður í næstu viku. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV