Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verkfall tveggja vikna og fleiri verkföll eftir viku

02.03.2020 - 17:00
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Samkomulag virðist hafa náðst um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki. Það dugir þó ekki til að leysa yfirstandandi kjaradeilur og koma í veg fyrir verkföll. Víðtæk verkföll gætu hafist eftir viku. Sáttafundur hefur ekki verið boðaður í deilu Eflingar og Reykjavíkurborgar. Verkfall hefur nú staðið yfir í tvær vikur.

Fleiri verkföll

Á mánudaginn eftir viku gætu hafist verkföll BSRB-félaganna sem munu hafa nokkuð mikil áhrif. Hjá flestum félögum er gert ráð fyrir að efnt verði til tímabundinna verkfalla út mars. Þau vara annað hvort í einn sólarhring eða tvo. Ef samningar hafa ekki tekist fyrir þann tíma á að hefjast ótímabundið verkfall frá 15. apríl. Sameyki boðar hins vegar ótímabundið verkfall strax á mánudaginn sem nær til tiltekinna stofnana, meðal annars til frístundaheimila og skóla í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Frístundaheimilunum verður lokað á mánudag ef samningar eru ekki í höfn þá. Það er ekki hægt að fullyrða hvort af verkföllum verður. Sumir eru bjartsýnir því stefnt er að stífum fundahöldum næstu daga. Aðrir viðmælendur Spegilsins telja líkur á að verkföll BSRB skelli á. 

Samúðarverkfall fyrir félagsdóm

Ótímabundið verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Hveragerði og Ölfusi á að hefjast á hádegi á mánudaginn kemur. Á sama tíma á að hefjast samúðarverkfall starfsmanna sjálfstæðra skóla sem eru fyrst og fremst í Reykjavík. Verkfallið nær til félagsmanna Eflingar sem starfa í þessum skólum. Samtök atvinnulífsins telja verkfallið ólögmætt og birti Eflingu stefnu um það í dag. Eftir því sem næst verður komist er gert ráð fyrir að málið verði þingfest í Félagsdómi á morgun og að Efling leggi þá fram sína greinargerð. Málið verði svo flutt á miðvikudag. Félagsdómur úrskurði svo eða dæmi í málinu í vikulok eða áður en boðað verkfall á að hefjast.

Enginn sáttafundur boðaður

Ótímabundið verkfall Eflingar í Reykjavík, sem hófst 17. febrúar, hefur nú staðið yfir í hálfan mánuð. Enginn fundur hefur verið boðaður í deilunni sem skýrist af því að ekkert áþreifanlegt er að gerast sem gæti verið tilefni til fundahalda. Hins vegar eru boðaðir sáttafundir Eflingar með samninganefndum bæði ríkisins og sveitarfélaganna.

Mynd með færslu
 Mynd: BSRB

En eru líkur á að BSRB-félögin semji áður en verkföll bresta á eftir eina viku og um hvað er deilt? Eins og fyrr segir verður fundað stíft næstu daga.

Samkomulag að nást um vaktavinnuna

Í fyrsta lagi hefur gengið erfiðlega að komast að endanlegu samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki. Í mög stuttu máli snýst það um að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36. Fyrir þá sem ganga átta tíma vaktir myndi það þýða fækkun um tvær vaktir á mánuði. Fundað var um helgina og aftur í dag. Á síðustu metrunum hefur einkum verið deilt um það sem kallað er yfirvinna 1 og 2. Greitt er minna fyrir yfirvinnu 1 sem gildir um vinnu sem unnin er þar til 40 stundum hefur verið náð á viku. Tillaga var um að hlutfallið yrði 0,85% af launum og fyrir aðra yfirvinnu eða næturvinnu yrði hlutfallið 1,0385 eins og verið hefur. Félögunum þykir of harkalega gengið til verks með lægri yfirvinnuna. það komi niður á  þeim sem eru í hlutastörfum. Um helgina náðist sátt um að lægra hlutfallið verði 0,9385. Ef það verður samþykkt í baklandinu er útlit fyrir að endanlegt samkomulag verði kynnt á næstu dögum.

Jöfnun launa

En það er deilt um fleiri atriði. Eitt þeirra er jöfnun launa milli markaða, milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Samið var um að slík jöfnun færi fram í tengslum við jöfnun lífeyrisréttinda. Jöfnun á að vera lokið í síðasta lagi 2026. Krafan hefur verið um að í þessum samningum verði stigið eitt skref í þessa átt. Málið er flókið því enn er ekki búið að kortleggja hver hinn raunverulegi munur er. Líklegast þykir að niðurstaðan verði málamiðlun. Samið verði um að á samningstímanum verði gengið frá málinu og skipulagt hvernig staðið verði að jöfnuninni.

Enn er tekist á um launaliðinn. Niðurstaðan  verður í anda lífskjarasamningsins en tekist er á um hvort allir félagsmenn eða hluti þeirra fái 90 þúsund króna hækkun mánaðarlauna á samningstímanum.

Tekist á um 1,5%

Loks er krafa BSRB-félaganna gagnvart sveitarfélögunum og að allir fái greiðslur sem nemur 1,5% af launum. Starfsgreinasambandið samdi við sveitarfélögin um slíka greiðslu sem tengist jöfnun lífeyrisréttinda. Samið var um að upphæðin færi í sérstakan sjóð, félagsmannasjóð, sem úthlutað er úr 1. febrúar ár hvert. Sumir segja að málið sé komið í hring því það sem Starfsgreinasambandið samdi um hafi verið til að jafna réttindi félagsmanna gagnvart launamönnum innan BSRB.