Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verkfall hjá póstinum felldi finnska forsætisráðherrann

03.12.2019 - 18:10
epa07566742 Antti Rinne, Social Democratic Party leader and current Speaker of the Parliament, arrives for talks with all parties that are invited to form the future government, in Helsinki, Finland, 13 may 2019. Talks have been held since the  Social Democratic Party (SDP) narrowly won Finland's general election on 15 April, and have been overshadowed by the role of lobbyists.  EPA-EFE/MAURI RATILAINEN
Antti Rinne, verðandi forsætisráðherra Finnlands. Mynd: EPA-EFE - COMPIC
Verkfall starfsfólks póstsins í síðasta mánuði varð til þess að Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, sagði af sér embætti í dag. Hann verður áfram formaður Jafnaðarmannaflokksins fram á næsta sumar.

Fyrir dyrum stóðu umfangsmiklar skipulagsbreytingar finnsku póstþjónustunnar. Þær hefðu haft í för með sér að vinnutími fjölda starfsmanna breyttist og laun þeirra lækkuðu um allt að þrjátíu af hundraði. Þessu undu þeir ekki og fóru í verkfall í síðasta mánuði með þeim afleiðingum að pósti var ekki dreift í marga daga.

Samúðarverkfall nokkurra stéttarfélaga varð til þess að samgöngur röskuðust, meðal annars ferjusiglingar milli Svíþjóðar og Finnlands. Þá varð Finnair að aflýsa nokkrum flugferðum. Samkomulag náðist í deilunni við póstinn í síðustu viku eftir rúmlega hálfs mánaðar vinnustöðvun. 

Miðflokkurinn, einn fimm flokka í finnsku samsteypustjórninni, lýsti því yfir í gær að vegna framgöngu forsætisráðherrans í deilunni nyti hann ekki trausts lengur, einkum vegna þess að hann kenndi stjórn póstþjónustunnar um verkfallið, gegn betri vitund. Antti Rinne tilkynnti því forseta landsins í morgun að hann hefði sagt af sér. Ekki er víst að það leysi úr pólitískri krísu í Finnlandi, þar sem Miðflokksmenn hafa enn ekki gert upp við sig hvort þeir ætli að slíta stjórnarsamstarfinu.

Líklegt er talið að Sanna Marin, varaformaður Jafnaðarmannaflokksins og samgönguráðherra, taki við forsætisráðuneytinu. Hún hefur lýst sig tilbúna til starfans. Antti Rinne verður áfram formaður jafnaðarmanna til næsta sumars þegar flokksþing verður haldið. 
 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV