Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verkfall Eflingar heldur áfram á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ekki náðust samningar á fundi Eflingar og fulltrúa sveitarfélaganna hjá Ríkissáttasemjara í dag. Fundurinn hófst klukkan 14 og stóð í um klukkustund. Boðað hefur verið til fundar eftir hádegi á morgun. Ótímabundið verkfall félaga Eflingar sem starfa hjá nokkrum sveitarfélögum hófst á mánudag og stendur enn.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að fulltrúar stéttafélagsins í viðræðunum hafi komið því mjög skýrt á framfæri að þau séu tilbúin til að gera allt til að ljúka samningum við Samband íslenskra sveitarfélaga eins hratt og auðið er. Horft sé til samnings Eflingar og Reykjavíkurborgar sem nýlega var undirritaður, þar sem hann tryggi leiðréttingu á launum láglaunafólks. 

Verkfallið sem nú stendur yfir nær til rúmlega 270 starfsmanna, meðal annars hjá Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Tveimur skólum í Kópavogi, Álfhólsskóla og Kársnesskóla, hefur verið lokað vegna verkfallsins. Skólaliðar sem sjá um ræstingar í skólunum hafa verið í verkfalli síðan á mánudag og var óþrifnaðurinn orðinn slíkur að ákveðið var að loka.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir