Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verkefni dagsins: Huga að verðmætum og mengun

16.01.2020 - 12:42
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Neyðarstig almannavarna á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið lækkað niður í óvissustig. Þessi ákvörðun var tekin eftir fund með aðgerðarstjórn á Ísafirði nú fyrir hádegið. Í dag verður unnið að því að bjarga verðmætum og að meta umfang á mengun vegna báta og olíutanka sem fóru í höfnina á Flateyri. Rögnvaldur Ólafsson stýrir aðgerðum í Samhæfingastöð almannavarna.

„Veðrið er farið að ganga niður og það er búið að opna vegi. Hættustigi vegna snjóflóða var aflétt í gær. Í dag verður skoðað hvort að það sé ástæða til að aflétta óvissustigi vegna snjóflóða. Það er búið að ákveða að fara af neyðarstigi almannavarna vegna snjóflóða og fara niður á óvissustig almannavarna,“ segir Rögnvaldur Ólafsson sem stýrir aðgerðum í Samhæfingastöð almannavarna.

Neyðarstigi var sjálfkrafa lýst yfir þegar snjóflóðin féllu á tólfta tímanum í fyrrakvöld. Háskastig almannavarna eru þrjú; Neyðarstig, hættustig og óvissustig. Með því að lækka stigið niður í óvissustig er verið að færa stig alvarleika niður um tvö og sleppa hættustigi. „Hættan er minni heldur en var. Við erum komin í endurbyggingafasa, það er byrjað að vinna í verðmætabjörgun og uppbyggingu eftir atburðinn. Þá er er áfallahjálp enn þá í gangi,“ segir Rögnvaldur jafnframt.

En hver eru helstu verkefnin í dag? „Það er náttlega þessi verðmætabjörgun sem er byrjuð, svo er verið að meta umfang á mengun út af þessum bátum sem fóru í höfnina á Flateyri og olíutankar sem fóru út í líka. Það er verkefnið sem er núna fram undan.“

Nú spáir veðurstofan hlýindum um helgina, hafið þið áhyggjur af því? „Já og nei. Hlýindi eru kostur fyrir okkur því að þá festir snjóinn aðeins, en það getur líka þýtt hláku og annað tilheyrandi vesen þannig við tökum því með blendnum hug.“

Almannavarnir vilja áfram beina til fólks að fylgjast með tilkynningum frá þeim, í gegnum smáskilaboð, samfélagsmiðla og á vef. „Og hugsa hvert um annað. Huga að náunganum og fjölskyldunni og sérstaklega fólki sem upplifði atburðina fyrir 25 árum síðan. Það er bara gott að spjalla og takast á við það.“ Kirkjan á Flateyri verður opin í dag fyrir þá sem vilja eiga samverustund.