Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Verjendur fá ekki gögn í amfetamín-máli

24.09.2019 - 16:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu verjenda í máli sem snýst um amfetamínframleiðslu í sumarbústað í Borgarfirði. Verjendurnir fóru fram á það við dóminn að fá aðgang að dagbókarfærslum lögreglu, afrit af hlerunum og öll önnur gögn er málið varða. Verjendurnir hafa þrjá daga til kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.

Alls eru sex ákærðir í málinu. Þrír hafa þegar játað sök og krefst saksóknari þess að þau verði dæmd í tólf mánaða fangelsi. Hinir þrír neituðu aftur á móti að taka afstöðu til ákærunnar þegar hún var þingfest  í síðustu viku. 

Þeim er gefið að sök að hafa framleitt rúmlega átta kíló af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði og eru einnig ákærðir fyrir aðild að umfangsmikilli kannabisframleiðslu í Þykkvabæ.  Tveir þeirra, Alvar Óskarsson og Einar Jökull Einarsson, fengu þunga dóma í Pólstjörnumálinu svokallaða.  Þeir hafa allir þrír setið í gæsluvarðhaldi frá því að málið kom upp.

Verjendur þremenninganna fóru fram á það þegar ákæran var þingfest að þeir fengju aðgang að öllum gögnum málsins. Þetta voru meðal annars dagbókarfærslur lögreglu og afrit af hlerunum. Saksóknari lagðist gegn kröfunni þar sem þar kæmu fram upplýsingar um starfsaðferðir lögreglu sem ættu að fara leynt. 

Þremenningarnir eru einnig grunaðir um umfangsmikið peningaþvætti en það mál er enn í rannsókn hjá lögreglu. Verjendur þeirra fóru fram á það að annað hvort yrði ákært í málinu eða það fellt niður. Saksóknari sagði málið hins vegar ekki á forræði ákæruvaldsins.