Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Verja 6,7 milljörðum í íþróttamannvirki á Akureyri
11.11.2019 - 14:29
Starfshópur um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar lagði í síðustu viku fram tllögur að forgangsröðun í uppbyggingu næstu 15 árin. Heildarkostnaður verkefnanna eru metinn á rúmlega 6,7 milljarða en til samanburðar voru útsvarstekjur Akureyrarbæjar árið 2017 rúmlega 9,1 milljarður.
Tillögurnar eru birtar í skýrslu þar sem 11 verkefnum er forgangsraðað eftir mikilvægi.
Starfshópur á vegum frístundaráðs tók til starfa í mars. Hlutverk hans var að greina gróflega stofn- og rekstrarkostnað við helstu íþróttamannvirki til framtíðar, stilla upp röð uppbyggingar og samspili verkefna og meta mögulegan framkvæmdahraða út frá fjárhagslegu svigrúmi bæjarins og fjárþörf verkefna.
Fyrsta verk hópsins var að kalla eftir upplýsingum frá aðildarfélögum ÍBA, eins konar óskalista um hvaða aðstöðu hvert félag þyrfti á næstu 5-15 árum. Skýrslan var svo í síðustu viku til umfjöllunar í frístundaráði Akueyrarbæjar sem vísaði henni til bæjarráðs. Skýrslan verður kynnt á fundi með íþróttahreyfingunni í dag.
Tillögur hópsins er um eftirfarandi röð framkvæmda:
- Uppbygging á félagssvæði Nökkva við Höpnersbryggju
Kostnaður um 150 m.kr
Byggja félagsaðstöðu og bátageymslu - Félags- og æfingaaðstaða í Skautahöll Akureyrar
Kostnaður um 150 m.kr
Reisa félags- og æfingaaðstöðu í norðurenda Skautahallar. - KA gervigras og stúka
Kostnaður um 1.000 m.kr
Útbúa æfinga- og keppnisaðstöðu á gervigrasi á félagssvæði KA ásamt stúkubyggingu. - KA félagsaðstaða
Kostnaður um 500 m.kr
Útbúa félagsaðstöðu fyrir daglega starfsemi félagsins, æfingaaðstaða fyrir deildir innan félagsins, búningsklefar fyrir starfsemina. - Hlíðarfjall þjónustuhús
Kostnaður um 450 m.kr
Reisa þjónustuhús fyrir starfsemi Skíðastaða í Hlíðarfjalli sem mun m.a. innihalda veitingaaðstöðu og salerni, miðasölu fyrir gesti, aðstöðu fyrir skíðaskóla, aðstöðu fyrir skíðaleigu, aðstöðu fyrir Skíðafélag Akureyrar, aðstöðu fyrir starfsfólk. - Golf- vetraraðstaða
Kostnaður um 100 m.kr
Reisa innanhússæfingaaðstöðu við golfskálann að Jaðri. - Innisundlaug
Kostnaður 1.500 m.kr
Byggja 50 metra innanhússundlaug fyrir kennslu, æfingar og keppni. - Þór - vestan við Bogann
Kostnaður 600. m.kr
Byggja félags-, æfinga- og geymsluaðstöðu við vesturhlið Bogans. Aðstaða fyrir deildir félagsins til æfinga, félags- og skrifstofuaðstaða deilda, salerni og geymsla fyrir starfsemi í Boganum. - Þór íþróttahús
Kostnaður 1.000 m.kr
Byggja íþróttahús á félagssvæði Þórs fyrir innanhússíþróttagreinar. - Þór - gervigras á æfingasvæði
Kostnaður 300 m.kr
Útbúa utanhúss gervigrasæfingasvæði á félagssvæði Þórs. - KA íþróttahús
Kostnaður 1.000 m.kr
Byggja íþróttahús á félagssvæði KA fyrir innanhúsgreinar.