Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verið að skella skuldinni á aðra

16.12.2019 - 17:00
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Framkvæmdastjóri Landverndar segir að orkufyrirtækin séu að skella skuldinni á einhverja aðra en þá sem eigi hana. Ábyrgðin sé hjá fyrirtækjunum sem séu í ríkiseign. Hún segir hins vegar að vel megi skoða breytingar á leyfisveitingakerfinu vegna lagningar raflína.

Það gengur ekki að hægt sé að stöðva verkefni endalaust, sagði forstjóri Landsvirkjunar í Speglinum fyrir helgi. Eftir óveðrið sem gekk yfir landið sem olli rafmagnsleysi víða um land hefur athyglin beinst að raforkuflutningskerfinu. Ráðherrar, forstjórar bæði Landsnets og Landsvirkjunar hafa gagnrýnt að leyfiskerfið þegar kemur að lagningu lína sé svifaseint og mögulegt sé að tefja ákvörðunartöku út í hið óendanlega. Gagnrýnin hefur meðal annars beinst að landeigendum sem staðið geti í vegi fyrir framkvæmdum.

Þeirra mistök og skrýtin forgangsröðun

Landvernd hefur beint kastljósinu að línum sem lagðar eru fyrir stóriðjuna og hafa þurft að fara í gegnum leyfisveitingarkerfið. Auður Önnu Magnúsardóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að það sé lagi að skoða leyfiskerfið. Það geti verið óskilvirkt.

„Hins vegar í þessu samhengi erum við að tala um risastór fyrirtæki í ríkiseigu sem hafa mjög mikla fjármuni og sem hafa ekki forgangsraðað fyrir landsmenn og almenningshagsmuni. Þau hafa forgangsraðað sinni starfsemi fyrir stórnotendur, stóriðjuna. Og þegar þeir hlaupa upp til handa og fóta og kenna einhverjum öðrum um þeirra eigin mistök og skrýtnu forgangsröðun, þá er það mjög einkennilegt,“ segir Auður.

Ekki beitt okkur gegn almenna kerfinu

Það hefur komið fram að stóriðjufyrirtækin leggja ríka áherslu að að þeim sé tryggt rafmagn sem í raun gefur að skilja. Hins vegar ríki ekki almenn sátt um hvernig haga eigi dreifikerfinu fyrir aðra notendur. En nýtast ekki stóriðjulínurnar hinum almenna notanda?

„Við hjá Landvernd höfum ekki verið að beita okkur gegn almenna dreifikerfinu á neinn hátt. Við höfum verið að einbeita okkur að stóriðjulínunum. Hvort það sé sátt veit ég ekki. Ég held að það sé bara ágætis sátt um það að tryggja raforku til almennings, til almennra notenda það er að segja annarra en stóriðjunnar,“ segir Auður. Stóriðjulínurnar nýtist að einhverju leyti almennum notendum en þær geti líka valdið truflunum og álagi á kerfið.

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Rafmagnsstaurar kubbuðust í sundur í veðrinu

Umhverfismálin í forgrunni

Til marks um seinaganginn í kerfinu benti forstjóri Landsvirkjunar á að nú á þessu ári væri fyrsta uppbyggingarverkefni Landsnets að fara af stað en fyrirtækið hefur starfað í 15 ár. Auður segir að ræða megi breytingar á leyfiskerfinu. En felast einhverjar hættur í því ef kerfið verður einfaldað of mikið?
Hún segir að það sé alltaf hætt við því. Mikilvægt sé að umhverfismálum verði gert hátt undir höfði. Í núverandi kerfi séu óþarflega mörg stig sem verði að fara í gegnum. Það sé ekkert endilega gott fyrir umhverfisverndarsamtök að þurfa að vera á vaktinni á öllum þessum stigum. Samtökin hafi gagnrýnt að náttúruverndin hafi ekki verið í forgrunni.

Skuldinni skellt á aðra

Landeigendur sem jafnvel hafa ekki fasta búsetu á löndum sínum hafa verið gagnrýndir fyrir að geta hindrað framgang framkvæmda. Finnst Auði að fyrirtækin séu að fría sig ábyrgð og skella skuldinni á aðra?

„Það er engin spurning. Það er verið að skella skuldinni á einhverja aðra. Þessi ábyrgð liggur hjá þessum fyrirtækjum sem eru í ríkiseigu. Þau hafa skyldum að gegna gagnvart almenningi og eiga að standa sig í því. Þannig að mér finnst algjörlega verið að skella skuldinni á einhverja sem eiga ekki skuldina. Varðandi rétt landeigenda þá er þetta eignarréttur sem er ótengdur umhverfismálum. Umhverfisverndarsamtök hafa mjög lítinn rétt gagnvart íslensku dómskerfi. Okkur er ítrekað vísað frá dómi þar sem landeigendur hafa möguleika á að sækja sinn rétt,“ segir Auður.