Það gengur ekki að hægt sé að stöðva verkefni endalaust, sagði forstjóri Landsvirkjunar í Speglinum fyrir helgi. Eftir óveðrið sem gekk yfir landið sem olli rafmagnsleysi víða um land hefur athyglin beinst að raforkuflutningskerfinu. Ráðherrar, forstjórar bæði Landsnets og Landsvirkjunar hafa gagnrýnt að leyfiskerfið þegar kemur að lagningu lína sé svifaseint og mögulegt sé að tefja ákvörðunartöku út í hið óendanlega. Gagnrýnin hefur meðal annars beinst að landeigendum sem staðið geti í vegi fyrir framkvæmdum.
Þeirra mistök og skrýtin forgangsröðun
Landvernd hefur beint kastljósinu að línum sem lagðar eru fyrir stóriðjuna og hafa þurft að fara í gegnum leyfisveitingarkerfið. Auður Önnu Magnúsardóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að það sé lagi að skoða leyfiskerfið. Það geti verið óskilvirkt.
„Hins vegar í þessu samhengi erum við að tala um risastór fyrirtæki í ríkiseigu sem hafa mjög mikla fjármuni og sem hafa ekki forgangsraðað fyrir landsmenn og almenningshagsmuni. Þau hafa forgangsraðað sinni starfsemi fyrir stórnotendur, stóriðjuna. Og þegar þeir hlaupa upp til handa og fóta og kenna einhverjum öðrum um þeirra eigin mistök og skrýtnu forgangsröðun, þá er það mjög einkennilegt,“ segir Auður.
Ekki beitt okkur gegn almenna kerfinu
Það hefur komið fram að stóriðjufyrirtækin leggja ríka áherslu að að þeim sé tryggt rafmagn sem í raun gefur að skilja. Hins vegar ríki ekki almenn sátt um hvernig haga eigi dreifikerfinu fyrir aðra notendur. En nýtast ekki stóriðjulínurnar hinum almenna notanda?
„Við hjá Landvernd höfum ekki verið að beita okkur gegn almenna dreifikerfinu á neinn hátt. Við höfum verið að einbeita okkur að stóriðjulínunum. Hvort það sé sátt veit ég ekki. Ég held að það sé bara ágætis sátt um það að tryggja raforku til almennings, til almennra notenda það er að segja annarra en stóriðjunnar,“ segir Auður. Stóriðjulínurnar nýtist að einhverju leyti almennum notendum en þær geti líka valdið truflunum og álagi á kerfið.