Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verður til þess að fólk hættir að fara í sjúkraþjálfun

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Full greiðsla fyrir sjúkraþjálfun kemur verst niður á þeim sem síst skyldi, segir formaður Öryrkjabandalagsins. Mörgum fötluðum sé það illgerlegt að fara með reikninga fyrir sjúkraþjálfun í Sjúkratryggingar og óska eftir endurgreiðslu. Viðbúið sé að margir öryrkjar hætti að sækja sér heilbrigðisþjónustu, eins og sjúkraþjálfun og heimsóknir til sérfræðilækna sem margir hverjir taki aukagjald sem ekki sé niðurgreitt af ríki.

Sjúkraþjálfarar tilkynntu í morgun að þeir væru hættir að hafa milligöngu um niðurgreiðslu Sjúkratrygginga á sjúkraþjálfun. Því þurfa þeir sem fara í sjúkraþjálfun að greiða á bilinu 6.000 til 8.000 krónur og fara svo með reikninginn í Sjúkratryggingar og óska eftir endurgreiðslu. Þá hefur upphæð fyrir sjúkraþjálfun í mörgum tilvikum hækkað því sjúkraþjálfarar eru óánægðir með þá gjaldskrá sem var í gildi. Hækkunin verður því ekki niðurgreidd af ríkinu og því þurfa þeir sem sem fara í sjúkraþjálfun sjálfir að greiða það. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segist enga afstöðu taka til deilunnar milli sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga.

„Engu að síður hörmum við að þessi staða sé komin upp þar sem hún bitnar verst á fólki innan okkar aðildarfélaga, fötluðu og veiku fólki. Svo finnst okkur það skjóta skökku við í ljósi allrar þeirrar umræðu sem hefur verið og áherslu sem hefur verið lögð á endurhæfingamál að þessi staða sé raunverulega uppi núna,“ segir Þuríður Harpa.

Of dýrt að fara í sjúkraþjálfun

Þá sé það bagalegt að fólk þurfi núna að greiða fullt gjald fyrir sjúkraþjálfun.

„Þetta er bara mjög mjög slæmt mál. Örorkulífeyrisþegar, sem eru fatlað og veikt fólk, framfærsla þeirra eða örorkulífeyrir er í sögulegu lágmarki. Þannig að fólk hefur ekki þessa peninga milli handanna. Þetta kemur til með og bitnar verst á þeim hópi sem síst skyldi og það eru notendur þessarar þjónustu,“ segir Þuríður Harpa.

Hún segist ekki hafa trúað því að deilan fari í jafnhart og nú er. Þuríður segir það ekki hlaupið að því fyrir öryrkja að leggja út allt að 8.000 krónur og svo fara upp í Sjúkratryggingar á Vínlandsleið í Grafarholti til að fá endurgreiðslu. 

Aukakostnaður einnig hjá sérfræðilæknum

„Svo á sama tíma er mjög slæmt að horfa upp á það að margir sérfræðilæknar eru farnir að taka aukagjald. Þetta spilar allt saman þar sem örorkulífeyrisþegar vegna fötlunar sinnar og veikinda leita mikið þangað líka. Þetta er orðinn dálítill pakki sem lendir á þessum hópi á stuttum tíma,“ segir Þuríður.

Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir þennan hóp að þurfa að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu?

„Einfaldlega þannig að fólk hættir að sækja sér þessa heilbrigðisþjónustu. Eins og með sjúkraþjálfun. Við höfum séð dæmi þess undanfarin ár að örorka vegna stoðkerfisvanda hefur dregist saman verulega. Ég get ekki ímyndað mér annað, miðað við það sem við höfum séð, að fólk kemur til með að spara þetta við sig. Þetta kemur þá fram annars staðar í kerfinu sem kannski ennþá meiri kostnaður,“ segir Þuríður Harpa.

Eru allir öryrkjar í góðum færum með að koma sé milli staða og upp í Sjúkratryggingar til að innheimta reikninga?

„Að sjálfsögðu ekki. Fólk er ekkert í færum með það endilega og kannski minnihlutinn sem er í góðum færum með það. Fyrir utan það að fólk miklar þetta fyrir sér. Þetta er flókið og erfitt. Það er erfitt fyrir fólk að fara af stað í endurhæfinguna og þurfa svo að fara á annan stað að fá þetta endurgreitt. Fyrir suma er þetta nánast ókleyft,“ segir Þuríður. 

Hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða

Þuríður segir að Öryrkjabandalagið hafi lengi haft áhyggjur af kostnaði við heilbrigðisþjónustu. „Ég hvet ríki og sjúkraþjálfara til að setjast niður og leysa þessa deilu,“ segir Þuríður.