Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verður Hildur fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskar?

epa08188414 Hildur Gudnadottir attends the 73rd annual British Academy Film Award at the Royal Albert Hall in London, Britain, 02 February 2020. The ceremony is hosted by the British Academy of Film and Television Arts (BAFTA).  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA - RÚV

Verður Hildur fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskar?

09.02.2020 - 13:19

Höfundar

Það verður mikið um dýrðir í Hollywood í kvöld þegar Óskarsverðlaunin verða afhent í 92. sinn í Dolby-höllinni í kvöld. Flestir sérfræðingar virðast sammála um að Hildur Guðnadóttir hljóti þessi eftirsóttu verðlaun fyrir tónlistina við kvikmyndina Joker sem er tilnefnd til 11 óskarsverðlauna. Hildur gæti orðið fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þessi eftirsóttu verðlaun.

Börn náttúrunnar, mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, var fyrst til að reyna við Óskarsstyttuna.

Árið 1992 var hún tilnefnd sem besta erlenda myndin, árið sem Jodie Foster og Anthony Hopkins hræddu líftóruna úr kvikmyndahúsagestum í Lömbin þagna, Silence of the Lambs.  Friðrik Þór þurfti hins vegar að horfa á eftir verðlaununum til  ítölsku myndarinnar Mediterraneo.  Og það var sjálfur Sylvester Stallone sem afhenti verðlaunin. 

Siðan liðu níu ár en þá var röðin komin að Björk Guðmundsdóttur og Sjón. Þau voru tilnefnd fyrir lagið I've Seen it All úr Lars von Trier-myndinni Dancer in the Dark og þóttu nokkuð sigurstrangleg.  Þótt Björk hafi ekki fengið verðlaunin heldur Bob Dylan fyrir lagið Things Have Changed úr Wonder Boys skráði söngkonan sig á spjöld sögunnar með hinum alræmda svanakjól. Þegar hitað er upp fyrir rauða dregilinn ár hvert er þessi kjóll Bjarkar alltaf nefndur.

Ísland var greinilega komið á kortið því það liðu aðeins fjögur þar til stuttmynd Rúnars Rúnarssonar, Síðasti bærinn, var tilnefnd.  Það ár kom akademían heimsbyggðinni á óvart þegar hún valdi Crash sem bestu myndina, eitthvað sem enginn hafði séð fyrir. 

Rúnar tapaði hins vegar fyrir Martin McDonagh sem eftir þau verðlaun hefur þrívegis verið tilnefndur til Óskarsverðlauna - fyrir handrit kvikmyndanna In Bruges og Three Billboards Outside Ebbing en sú síðarnefnda var einnig tilnefnd sem besta myndin. Það voru spéfuglarnir Owen og Luke Wilson sem afhentu verðlaunin.

Síðan komu nokkur mögur ár og Íslendingar hvergi sjáanlegir á rauða dreglinum þar til Jóhann Jóhannsson tók kvikmyndaheiminn með trompi.  Frá árinu 2015 til 2017 var Jóhann tilnefndur til þriggja Bafta-verðlauna, tveggja Golden Globe-verðlauna og tveggja Óskarsverðlauna.

Fyrst fyrir kvikmyndina The Theory of Everything en fyrir þá mynd hafði Jóhann hlotið, fyrstur Íslendinga, Golden Globe.  Það var hins vegar Alexandre Desplat sem hlaut Óskarsverðlaunin fyrir The Grand Budapest Hotel.  Desplat er einnig tilnefndur í ár fyrir tónlistina við kvikmyndina Little Women. Julie Andrews afhenti verðlaunin.

Árið eftir var Jóhann aftur tilnefndur og nú fyrir spennumyndina Sicario þar sem Hildur Guðnadóttir leikur meðal annars á selló. Það var hins vegar goðsögnin Ennio Morricone sem hlaut Óskarsverðlaunin fyrir tónlistina við Tarantino-myndina The Hateful Eight.  Það voru þeir Pharrell Williams og upptökustjórinn Quincy Jones sem afhentu verðlaunin.

Í nótt skýrist það síðan hvort það verður hafnfirska tónskáldið Hildur Guðnadóttir sem verður fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þessa eftirsóttu styttu. Sigurganga Hildar á verðlaunahátíðum hefur verið með miklum ólíkindum á þessu ári.  Fyrst var það Golden Globe.

Og svo voru það bresku Bafta-verðlaunin. Tónlistin við Joker hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og bæði leikstjórinn Todd Phillips og aðalleikarinn, Joaquin Phoenix, hafa talað um það í viðtölum hversu mikilvæg hún hafi verið.

Þar með er ekki allt upptalið því Hildur hefur einnig sópað til sín verðlaunum fyrir sjónvarpsþættina Chernobyl. Verðlaunagripirnir eru því orðnir býsna margir eins og sést á þessari mynd sem sett var á Twitter.

Helstu sérfræðingar virðast sammála um að Hildur sé sigurstrangleg í kvöld og það hefur aðeins gerst þrisvar á síðustu tíu árum að sama tónskáld hafi ekki unnið Bafta og Óskar.  

Kvikmyndatímaritið Hollywood Reporter hefur reiknað út að líkurnar á sigri Hildar séu 46,1 prósent og allir sérfræðingar Gold Derby nema þrír spá henni sigri.

Það sem er talið geta komið í veg fyrir sigur Hildar er að helsti keppinautur hennar, Thomas Newman, er tilnefndur í fímmtánda sinn en hann hefur aldrei unnið. Newman er tilnefndur fyrir tónlistina við kvikmyndina 1917.

Afhending verðlauna fyrir bestu tónlistina eru 19. í röðinni og því þurfa Íslendingar að vaka aðeins fram eftir nóttu, þegar veitt hafa verið verðlaun fyrir bestu erlendu kvikmyndina ætti fólk að sperra eyrun.

En hvað þá með önnur verðlaun? Flestir sérfræðingar eru sammála um að úrslitin í leikaraflokkunum séu ráðin.  Joaquin Phoenix og Rene Zellweger hafa hlotið öll helstu verðlaunin fyrir frammistöðu sína í kvikmyndunum Joker og Judy og sömu sögu má segja af Brad Pitt og Lauru Dern fyrir myndirnar Once Upon a Time og Marriage Story. 

Mesta spennan ríkir því um hvaða mynd verður valin sú besta. Flestir hallast að 1917 sem yrði þá fyrsta kvikmyndin í fimm ár til að hljóta bæði Bafta og Óskar. 

Bein útsending frá rauða dreglinum hefst á RÚV klukkan tólf á miðnætti.