Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verður erfiðara að leggja sæstreng

29.08.2019 - 20:26
Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson / RÚV
Sérfræðingur í orkumálum segir ekki hægt að halda fram sem rökum gegn þriðja orkupakkanum að framkvæmdastjórn ESB hafi höfðað mál gegn Belgum vegna innleiðingar hans. Sú málshöfðun sé ekki sambærileg málinu sem hér er rætt. Hann segir að samþykkt þriðja orkupakkans hér, með þeim fyrirvörum sem eru gerðir, myndi gera mönnum erfiðara fyrir að leggja sæstreng en nú er.

Árið 2014 sendi Evrópusambandið Belgum formlega tilkynningu um að innleiðingu Belga á tilteknum atriðum í þriðja orkupakkanum væri ekki formlega lokið. Þar sem Belgar brugðust ekki við gaf Evrópusambandið út rökstutt álit árið 2016. Á grundvelli þess höfðaði Evrópusambandið samningsbrotamál í júlí. 

Málið snýst um að orkueftirlitinu í Belgíu, CREG, hafi ekki verið veitt heimild til að taka bindandi ákvarðanir sem snúa að raforku- og gasfyrirtækjum heldur geti  það einungis lagt til við stjórnvöld að taka slíkar ákvarðanir. 

Evrópusambandið segir að eftirlitsstofnunin eigi að setja skilmála um samtengingu flutningskerfa, en ekki stjónvöld OG að eigendur flutningskerfa hafi ekki full yfirráð yfir þeim og geti því ekki tryggt jafnan aðgang veitustofnana að kerfunum.

Miðflokkurinn hefur í málflutningi sínum gegn þriðja orkupakkanum haldið því fram að málaferli ESB gegn Belgíu séu staðfesting á því að Íslendingar eigi ekki að innleiða þriðja orkupakkann. Um það sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins: „Mál sem mér finnst reyndar bara kveða upp úr um niðurstöðu í þessu, tilkynning frá Evrópusambandinu sjálfu um að það sé að fara í málaferli við Belgíu og þeir rekja hvers vegna það er, það er vegna þess að Belgar ætli ekki að gefa eftir vald yfir raforkumálum hjá sér og ætli sjálf, eða stjórnvöld þar, að hafa eitthvað um það að segja hvort það verði tenging milli Belgíu og annarra landa.“

Hilmar Gunnlaugsson, sérfræðingur í orkurétti, segir þessa fullyrðingu ranga.  „Belgía er þegar tengt fjölmörgum öðrum löndum sem að því liggja, þar á meðal með sæstreng yfir til Bretlands, þannig að það er ekki hægt að bera þetta saman og þetta snýst um skilyrði fyrir aðgangi en ekki að það eigi að tengjast öðrum löndum.“

Hilmar segir að þriðji orkupakkinn eins og hann er lagður fyrir Alþingi valdi því að það verði erfiðara að leggja sæstreng til Íslands en nú er. Og að auki muni þurfa samþykki Alþingis, til að leggja megi sæstreng.