Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Verður aldrei starfsemi í þessu húsi aftur“

31.07.2019 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Húsnæði fyrirtækjanna IP-úgerðar og IC Core í Fornubúðum 3 í Hafnarfirði er ónýtt eftir eldsvoðann í nótt. „Þetta er altjón. Það er allt farið,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri IP-útgerðar. „Það verður aldrei starfsemi í þessu húsi aftur.“ Sá hluti húsnæðisins þar sem Fiskmarkaður Suðurnesja er til húsa slapp við eldinn.

Eldsins varð vart á fjórða tímanum í nótt og var allt lið Slökkviliðs höfðuðborgarsvæðisins sent á vettvang. Að auki fékkst aðstoð frá Brunavörnum Árnessýslu og Brunavörnum Suðurnesja. 

Gunnar segist hafa fengið fregnir af brunanum um klukkan sjö í morgun og verið á vettvangi síðan. Hann segir mat á tjóninu á algjöru frumstigi og vettvangurinn lokaður.  

Gunnar segir að IP-útgerð hafi verið með matvælavinnslu í 250 fermetrum hússins. IC Core hafi verið með 1250 fermetra hússins. Þar voru framleidd matvæli úr sjávarfangi, samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins

Aðspurður um næstu skref segir Gunnar að hann eigi eftir að heyra í tryggingafélagi sínu. „Það ferli fer í gang og svo þarf að koma starfseminni aftur af stað. Við erum að huga að því hvernig við getum gert það og annað.“ 

Búið er að ráða niðurlögum eldsins og voru slökkviliðsmenn undir hádegi að slökkva síðustu glæðurnar sem leynast hér og hvar í húsinu.