Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Verður ákærður fyrir margvísleg almannahættubrot

11.03.2020 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson
Þrítugur karlmaður stofnaði sjálfum sér og öðrum í stórhættu í morgun þegar hann stal steypubíl í miðborg Reykjavíkur og ók honum á móti umferð. Lögregla veitti manninum eftirför og handtók hann. Verið er að rannsaka hvort verknaðurinn hafi verið að yfirlögðu ráði, að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Sjö lögreglubílar og einn sérsveitarbíll tóku þátt í að stöðva háskaför mannsins á tíunda tímanum í morgun. Fjöldi fólks varð vitni að eftirför lögreglunnar og margir náðu atvikinu á myndband. 

Steypubíllinn er í eigu fyrirtækisins Steinsteypunnar og stóð við nýbyggingu á Vitastíg þegar honum var stolið. Þjófurinn hreinlega stökk upp í bílinn og ók af stað.  Útkallið er með því snúnara sem lögreglumenn hafa staðið frammi fyrir.

„Þetta er gríðarlega erfitt. Þetta er ekki það sem við erum að kljást við  daglega sem betur fer. Við höfum náttúrlega engin tæki til að stoppa svona, því miður,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu. Hann er um þrítugt og var undir áhrifum fíkniefna. Hann var klæddur i vinnufatnað þegar hann stal bílnum. Lögreglan er að rannsaka atburðarásina en meðal annars er til rannsóknar hvað manninum gekk til.

Guðmundur segir að maðurinn verði ákærður fyrir margvísleg almannahættubrot og umferðarlagabrot.  

„Hann er hérna uppi hjá okkur núna og verður væntanlega yfirheyrður í kvöld. En eru einhverjar grunsemdir um að þetta hafi verið að yfirlögðu ráði - hann hafi ætlað að fara þarna og stela þessum bíl og valda einhverjum skaða? Það á eftir að koma í ljós, það kemur í ljós þegar náum að spjalla við hann.“