Verður að vernda sterk fyrirtæki en ekki bjarga veikum

15.03.2020 - 13:01
Mynd: RÚV / RÚV
Ísland hefur aldrei verið jafn vel undir það búið að takast á við efnahagslegar afleiðingar af heimsfaraldri á borð við COVID-19. Gylfi Zoega, hagfræðingur, segir að næstu mánuði skipti mestu máli að halda lífi í sterkum fyrirtækjum hér á landi til þess að koma í veg fyrir langvarandi atvinnuleysi.

„Vernda fyrirtækin fyrir áfallinu sem núna er að verða, en kannski ekki nota þetta til þess að bjarga fyrirtækjum sem hefði hvort sem er farið niður. Og það eru bankarnir sem verða að meta þetta. Ef fyrirtækin verða ennþá til þegar við komum út úr farsóttinni, þá getum við vonast til þess að atvinnuleysið komi fljótt niður aftur,“ sagði Gylfi í Silfrinu í morgun.

Hann sagði Ísland vera viðkvæmt við þrengingum þar sem ferðaþjónustan sé svo stór hluti af efnahagslífinu hér. Aðgerðir stjórnvalda séu hins vegar til þess fallnar að bregðast við og það hjálpi mikið að staðan hér sé almennt góð.

„Góðu fréttirnar eru þær að áður en þetta byrjar þá er ástand efnahagsmála mjög gott, og hefur aldrei verið betra. Skuldir ríkisins eru litlar, erlendar skuldir litlar og vextir lágir. Þetta land er eins vel undirbúið og það hefur nokkurn tímann verið og það er kannski kosturinn við að hafa lent í erfiðleikunum 2008. Aldrei í sögunni hefur landið staðið jafnvel gagnvart útlöndum. Við búum í landi þar sem eru auðlindir og það verður áfram. Það fær því ekkert grandað. Svo þegar þessi pest er gengin yfir, þá höldum við bara áfram.“

Ítalía verið púðurtunna á Evrusvæðinu

Þrátt fyrir að Ísland sé vel undirbúið þá sé ekki hægt að stjórna því sem gerist í efnahagslífinu í heiminum. Þar verði að vona það besta.

„Það sem maður óttast er það að í heimshagkerfinu eru vandamál sem voru þar fyrir, sem þetta gæti magnað upp. En kannski þegar uppi er staðið gæti þetta högg verið sársaukafullt til skemmri tíma en leyst hnúta til lengri tíma,“ sagði Gylfi og nefndi Ítalíu sérstaklega sem hnút. Landið hafi raunar verið púðurtunna á Evrusvæðinu þar sem hagvöxtur sé lítill og skuldir miklar. Þá verði áhugavert að fylgjast með því hvað Þýskaland geri í þessum aðstæðum, sem risinn á Evrusvæðinu.

Þess vegna sé erfitt að spá fyrir um áhrif efnahagsþrenginga í heimshagkerfinu hér á landi.

„Þó við höfum náð að bjarga okkur hér, þá þurfum við samt að hafa áhyggjur af þessu heimshagkerfi. Vonandi leysast bara hnútarnir og við höldum áfram, en það gæti verið einhverjir erfiðleikar. Þetta land er vel undirbúið fyrir svona hristing í útlöndum, en við getum ekkert gert og verðum að vona það besta,“ sagði Gylfi Zoega.