Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Verður að rannsaka málið ofan í kjölinn

13.11.2019 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Rannsaka þarf ofan í kjölinn þær upplýsingar sem komu fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöldi um greiðslur félaga Samherja til ráðamanna í Namibíu. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali í hádegisfréttum RÚV. Hún sagði viðeigandi stofnanir verða að taka á málinu. Hún sagði málið sýna enn fremur fram á þörfina fyrir löggjöf um vernd uppljóstrara.

„Ég var mjög slegin og mér var mjög brugðið við að horfa á þau gögn sem voru birt í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöldi. Það er alveg ljóst að ef þessir málavextir reynast réttir, eins og þeir voru birtir þarna, þá er þetta mál allt hið versta og til skammar fyrir Samherja og mikið áhyggjuefni fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenskt atvinnulíf,“ sagði Katrín.

„Þetta mál þarf núna að rannsaka ofan í kjölinn. Það þarf að lyfta hverjum steini þar,“ sagði Katrín um uppljóstranir í Kveik og Stundinni. „Málið er þegar komið til meðferðar héraðssaksóknara, sömuleiðis hefur skattrannsóknastjóri fengið afmörkuð gögn sem tengjast þessu máli,“ Hún sagði liggja fyrir að viðeigandi yfirvöld hérlendis þurfi að eiga í samskiptum við viðeigandi yfirvöld erlendis um framhald málsins.

Verða að fylgja lögum

„Við gerum auðvitað þá kröfu til íslenskra fyrirtækja að þau fylgi íslenskum lögum og lögum í þeim löndum þar sem þau starfa. Hins vegar verð ég að segja að eins og þetta mál blasti við í gær fannst mér það minna óþægilega á gamaldags nýlenduherra sem eru að nýta sér veikleika í stjórnkerfi viðkomandi lands,“ sagði Katrín. Hún sagði stóra málið vera að íslensk fyrirtæki verði að fylgja lögum og að fyrsta viðfangsefnið sé rannsókn þess. 

Vernd uppljóstrara og tilkynning til lögreglu

Katrín sagði enga mótsögn í því að leggja fram lagafrumvarp um vernd uppljóstrara á sama tíma og hún hefði sent lögreglu erindi um hugsanlega uppljóstrun starfsmanna Seðlabanka Íslands við fréttamann RÚV um húsleit hjá Samherja vegna gruns um brot á skilaskyldu gjaldeyris. Hún sagði það mál sem hún tilkynnti til lögreglu tengjast lögum um Seðlabanka Íslands. „Í því máli ætlast ég líka til að lögum sé fylgt, alveg eins og í þessu máli. Hins vegar hvað varðar það frumvarp sem ég hef lagt fram á Alþingi um vernd uppljóstrara, það snýr að því hvernig við getum tryggt vernd uppljóstrara í íslensku réttarumhverfi. Ég held að málið í gær sýni okkur enn betur nauðsyn þess að það mál verði afgreitt á Alþingi.“