„Verðum alltaf Reykjavíkurdætur á Íslandi“

Mynd: Reykjavíkurdætur / Youtube

„Verðum alltaf Reykjavíkurdætur á Íslandi“

17.11.2019 - 10:16
Rappetturnar í Reykjavíkurdætrum sem hlutu sérstaka viðurkenningu í gær á degi íslenskrar tungu sendu nýverið frá sér nýjan smell. Þær kalla sig nú Daughters of Reykjavik og á væntanlegri plötu blanda þær saman íslensku og ensku í rímum sínum.

„Þó við köllum okkur Daughters of Reykjavik þá verðum við alltaf Reykjavíkurdætur á Íslandi,“ segir Reykjavíkurdóttirin Þura Stína en hún og Ragga Hólm, meðlimir sveitarinnar, ræddu við Jafet Mána Magnúsarson um nýja lagið og enskuna sem þær eru byrjaðar að brúka í textasmíð sinni.

Sveitin hlaut í gær sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu fyrir að fjalla um reynsluheim ungra íslenskra kvenna á íslensku nútímamáli sem þær beiti á skapandi og oft á tíðum ögrandi hátt. Þær segjast ekki hafa sagt skilið við íslenskuna þó áherslurnar séu breyttar.

„Við köllum okkur Daughters of Reykjavik fyrir erlendan markað svo það sé auðveldara að leita til okkar á samfélagsmiðlum og bera nafnið okkar fram,“ samsinnir Ragga Hólm en Reykjavíkurdætur hafa komið töluvert meira fram erlendis en á Íslandi upp á síðkastið og njóta mikillar hylli víða um Evrópu. Þær segja að tónleikagestir hiki ekki við að syngja með þó þau viti ekki endilega hvað þau séu að segja. „Við erum duglegar að kenna fólki textana okkar, það er hluti af tónleikum okkar.“

Strax eðlilegt að rappa á ensku

Þær segja að það hafi verið erfið tilhugsun að prófa sig áfram með að rappa á ensku en fljótlega hafi þær áttað sig á því að það væri rétt skref. „Við vorum skeptískar til að byrja með en það varð strax mjög eðlilegt,“ segir Þura. „Við ákváðum að ef texti kæmi betur út á ensku þá myndum við kýla á að rappa hann á ensku.“

Það þarf ekki alltaf að hafa eitthvað að segja

Yrkisefni Reykjavíkurdætra hefur þróast frá því að vera pólitískt í að fjalla meira um galeiðuna og almenna skemmtun. Þær segja þetta vera vísvitandi þróun. „Áður voru lögin pólitískari og maður fann pressu fyrir því að vera alltaf að segja eitthvað en það sem við erum að semja um núna er að vera með í partýinu og hafa gaman.“ 

Þura segir að lag sveitarinnar, Ógeðsleg hafi verið fyrsti vísirinn að þessari nýju stefnu þeirra í textasmíð. „Við þurfum ekkert að hafa eitthvað að segja. Það er gaman að djamma og vera með vinkonum sínum,“ segir hún. „Á nýju plötutunni förum við þó meira inn á við og við tæklum hvernig ferlið hefur verið. Við tölum um það sem við höfum upplifað hér og erlendis, bæði það neikvæða og jákvæða.“

Leyniverkefni og plötuútgáfa í vændum

Framundan hjá sveitinni er útgáfa plötunnar næsta vor en þær eru einnig með fleira á prjónunum sem þær geta ekki tjáð sig um að svo stöddu. „Við erum líka með leyniverkefni í gangi sem ekki má tala um,“ segir Ragga Hólm leyndardómsfull að lokum.

Jafet Máni Magnúsarson ræddi við Þuru Stínu og Röggu Hólm og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Þeir sem segja ljóta hluti hafa ekki hlustað

Tónlist

Karlrapparar á Íslandi vaxa eins og lúpína