Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Verðum að nýta tímann betur“

03.12.2019 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - RÚV
Lesskilningur barna er mun lakari hér en annars staðar á Norðurlöndum og nokkuð undir meðaltali OECD-ríkja og hrakar enn, samkvæmt niðurstöðum PISA- rannsóknarinnar sem menntamálaráðherra kynnti í morgun. Lesskilningur og læsi íslenskra nemenda á náttúrufræði og stærðfræði hefur lítið breyst á þremur árum. Ráðherra kynnti aðgerðir sem miða að því að auka færni íslenskra nemenda. 

PISA er alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Alls taka tæplega 80 þjóðir þátt í rannsókninni, þar af 34 aðildarríki OECD. PISA-rannsóknin er gerð á þriggja ára fresti í öllum ríkjum OECD og nær til um 600 þúsund barna. Í ár var lögð sérstök áhersla á lesskilning.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir ekkert annað koma til greina en að gera betur og kynnti í morgun aðgerðir sem hún telur að auki færni íslenskra nemenda.

Sérstök áhersla á lesskilning

„Við verðum að nýta tímann okkar betur og við verðum að hafa námsefni sem höfðar til nemendanna. Ein af þeim aðgerðum sem ég var að kynna hér er að við erum að endurskoða námsefnið og við verðum að taka mark á þessum niðurstöðum. Við verðum sérstakleg að efla lesskilning. Ég hef þá trú að allir geta lært en við verðum að tryggja það að viðkomandi aðilar hafi áhuga á því sem fyrir þeim liggur,“ segir Lilja.

Þriðjungur drengja nær ekki grunnhæfni í lesskilningi, samkvæmt nýjustu niðurstöðum. Frammistaða íslenskra nemenda er mun lakari en annars staðar á Norðurlöndum og hefur dalað frá 2000 þegar Ísland tók fyrst þátt. Í heildina ná 26% ekki viðmiðum. 

Hafa ekki tök 98% texta

Lilja segir að ef nemendur hafa ekki tök á 98% af þeim texta sem þau eru að lesa þá ná þau ekki að draga ályktanir.

„Þar liggur vandinn og þess vegna mun sú nálgun sem við erum að fara í hér núna miða að því að efla námsorðaforða barnanna okkar og við erum að fara að fjölga tímum í íslensku til að styrkja móðurmálið okkar,“ segir Lilja.

Íslensk börn standa áfram verr að vígi en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum ríkjum OECD þegar kemur að læsi á náttúruvísindi en staðan er óbreytt frá 2015. Færni í stærðfræði er aftur á móti rétt yfir meðaltali og hefur aukist frá síðustu könnun PISA. Niðurstöðurnar sýna einnig að færni nemenda á landsbyggðinni er marktækt lakari en á höfuðborgarsvæðinu. Þar telur ráðherra brýnt að bæta aðgengi kennara að starfsþróun.

En hvað vill Lilja segja við foreldra og uppalendur?

„Ég vil segja þeim að nýta tímann vel með börnunum. Hugið vel að námsorðaforðanum, skoðið hvað er að gera og takið þátt og ég er sannfærð um að við höfum allt í það. Mannauðurinn á Íslandi er gríðarlegur og nú þrufum við að einbeita okkur að því að fara í þessar aðgerðir og standa okkur.“

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV